bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Fegrum bæinn saman
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
mánudaginn 28. október 2019 kl. 06:04

Fegrum bæinn saman

– segir listakonan Lína Rut sem kallar eftir samstöðu bæjarbúa

Listakonan Lína Rut á vini í höfuðborginni sem skilja ekkert í henni að hafa flutt með fjölskylduna í Reykjanesbæ og jafnvel hneykslast á ákvörðun hennar. Það er ekki bara útlit bæjarins sem hefur batnað finnst henni, skólarnir hafa einnig stórlagast og það var einmitt þess vegna sem hún var tilbúin að flytja til Suðurnesja. Lægra íbúðarverð hafði jú afgerandi áhrif því hér gat hún ímyndað sér að hægt væri að verja meiri tíma með fjölskyldu sinni, einmitt vegna þess að það var léttara að eignast þak yfir höfuðið í Reykjanesbæ. Síðan eru liðin fjórtán ár.

Víkurfréttir kíktu í kaffi heim til Línu Rutar á Vallargötunni, í gamla miðbæ Keflavíkur, húsnæði sem áður hýsti prentsmiðjuna Grágás.

Hneykslaði vini sína með því að flytja hingað

„Það þykir ekki beint töff að búa hérna,“ segir Lína Rut kankvís: „En ég hef aldrei fylgt fjöldanum og fer mínar eigin leiðir. Mér finnst til dæmis miklu meira töff að eiga fleiri gæðastundir með börnunum mínum heldur en að vera þræll eigna minna í höfðuborginni. Bærinn þótti ljótur og ekkert hafa upp á að bjóða en það breyttist mikið í tíð Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, sem gerði átak í fegrunarmálum bæjarins og skurkur var gerður í skólamálum. Það bara virðist ekki hafa komist almennilega til skila út í kosmósið. Lægra íbúðarverð og tvöföldun Reykjanesbrautar hafði jú afgerandi áhrif á mig en hér gat ég ímyndað mér að hægt væri að verja meiri tíma með fjölskyldunni og það reyndist rétt.“

Gott að búa í gamla bænum

„Mér líður rosalega vel í þessu húsi og er að gera það upp hægt og rólega. Næst á dagskrá er meðal annars að byggja vinnustofu hér í garðinum en núna er vinnustofan staðsett í stofunni minni. Húsinu fylgir byggingarréttur þannig að það eru miklir möguleikar hér og spennandi verkefni framundan. Ég var búin að fylgjast með þessu húsi þegar ég bjó í Lux því ég hef lengi átt þann draum að gera upp og búa í iðnaðarhúsnæði. Mér fannst alltaf eitthvað spennandi við Grágás en þar sem ég var ekki á heimleið þá otaði ég þessu að vinkonu minni sem var búsett Reykjavík, benti henni á að kaupa þetta hús því það hefði svo mikla möguleika en henni fannst húsið algjör hryllingur og sá enga möguleika fyrir sig í því. Svo breyttust plönin, við fluttum heim en þá var húsið selt en svo kemur það aftur í sölu. Það átti að gera hérna gistihús en gekk ekki upp og bankinn tók húsið yfir. Nú er hér heimili og vinnustofa,“ segir Lína Rut og það fer ekki framhjá blaðamanni, sem lítur í kringum sig og sér allar skemmtilegu fígúrurnar sem listakonan hefur skapað og skreyta rýmið.

„Ég bjó áður í 101 Reykjavík. Fólk er enn að spyrja mig hvort þetta sé nú ekki orðið gott og hvort ég ætli ekki að fara að flytja aftur í bæinn. Ég er fyrir lifandis löngu orðin þreytt á að réttlæta tilveru mína hér, hef tekið marga slagina í gegnum árin við fólk sem hefur gríðarlega neikvæða mynd af samfélaginu hér. Verstir eru þeir sem hafa aldrei komið hingað og brottfluttir Keflvíkingar. Í dag nota ég bara eitt orð þegar ég er spurð út í búsetu mína hér, hagræðing. Fólk skilur hvers vegna fyrirtæki þurfi að hagræða í rekstri en fyrir suma er tormeltara að skilja það þegar um fjölskyldu er að ræða. Flestir segja „en þú ert svo langt í burtu“ en þá spyr ég á móti, langt í burtu frá hverju?“ Þá verður oft fátt um svör,“ segir Lína Rut og hlær og heldur áfram: „Nú eru tímarnir aldeilis breyttir fyrir íbúa í 101 Reykjavík, fólk sem áður lifði bíllausu lífi er farið að kaupa sér bíla til að sækja þjónustu út fyrir 101 því mörg fyrirtæki hafa hrökklast úr miðborginni, meira að segja pósthúsið er farið. Þannig að ég, sem bý hér í 101 Kef, er í mun meiri lúxus hvað þetta varðar því ég get labbað í flesta þjónustu sem ég þarf að sækja. Það er mikil aukning á ungu fólki núna í bæjarfélaginu en ég skil ekki af hverju það er ekki mun meira um að unga fólkið byrji að búa hér niðri í bæ, kaupi sér íbúð í miðbæ Keflavíkur þar sem stutt er í alla þjónustu og eigi einn sparneytinn bíl til að keyra á milli til höfuðborgarinnar. Það eru svo breyttir tímar, hægt að stunda fjarnám og jafnvel stunda vinnu heima hluta vikunnar. Svo er alltaf hægt að snúa aftur til borgarinnar eftir X ár og vera þá í sterkari stöðu fjárhagslega heldur en að vera bundinn í klafa í dýru leiguhúsnæði eða íbúðarverði.“

Var ekkert of hrifin

Lína Rut var ekki alltaf svona jákvæð í garð bæjarins og segir frá því þegar hún fór í bíltúr hingað fyrir mörgum árum en þá var bærinn ekki svona fínn. Þetta var fyrir tíð Árna bæjarstjóra segir hún.

„Það skiptir mig miklu máli að búa í fallegu umhverfi, sem listakona vinn ég að sjálfsögðu og þjálfa sjónræna þáttinn alla daga og kannski á ég það til að missa mig í einhverjum smáatriðum, veit ekki en smáatriði skipta líka máli að mínu mati. Varðandi umhverfið þá hafði það mikil áhrif á mig að búa í Luxemburg í sjö ár. Þar er gríðarlega fallegt og allt tipp topp enda fólk sektað ef hús og garður er ekki í þokkalegu ástandi að framanverðu. Sumum finnst kannski harkalegt að sekta fólk fyrir þetta, sérstaklega fólk sem nær varla endum saman um hver mánaðamót, en málið er að þú þarft ekki að vera ríkur til að hafa þrifalegt í kringum þig. Það var merkilegt að sjá á ákveðnum svæðum í Lux hvernig fólk hélt öllu snyrtilegu að framanverðu en svo var allt verulega sjúskað baka til. Þegar við fluttum aftur heim til Íslands þá fékk ég smá sjokk þegar ég fór til dæmis Laugaveginn. Ég hugsaði með mér, hvort þetta hafi alltaf verið svona sjúskað eða hvort ég hafi verið orðin samdauna öllu þessu hér heima áður en ég flutti út, eflaust var það blanda af hvoru tveggja,“ segir Lína Rut og ypptir öxlum.

Vörumerki Reykjanesbæjar?

Listakonunni finnst bæjaryfirvöld þurfa að halda áfram að byggja upp jákvæða ímynd Reykjanesbæjar, því verkefni sé ekki lokið.

„Undanfarin ár hefur allt snúist um að borga af skuldum bæjarins sem er auðvitað eðlilegt en er ekki kominn tími til að taka góðan skurk í fegrun bæjarins? Mér finnst við þurfa að halda áfram að bæta bæjarímyndina. Það er ekki búið. Það má fegra bæinn okkar og ákveða hvernig við viljum að vörumerki hans sé. Fyrir hvað á Reykjanesbær að standa? Við höfum jú kynnt okkur sem íþróttabæ sem er fínt en það er ekki nóg, við þurfum eitthvað meira. Við þurfum að skoða til dæmis afhverju fólk fer frekar austur fyrir fjall en ekki hingað í skreppitúr? Hvað getum við gert til að breyta þessu, fá fleiri hingað í bíltúr? Hvernig getum við gert bæinn líflegri og skapað segul út á við svo fólki langi til að koma hingað? Ekki bara á Ljósanótt. Afhverju á fólk að koma hingað? Við ættum að geta fengið miklu meira af fólki hingað til dæmis um helgar en þá eru margir að leita að dægrastyttingu, afþreyingu. Ég einblíni á Hafnargötu því hún er lífæð bæjarins og verður að vera í lagi. Að sjálfsögðu eru húsin ekki í eigu bæjarins en bærinn getur lagt ákveðnar línur til dæmis þegar einhver vill mála hús við Hafnargötu að þeir geti þá leitað ráða hjá bænum um litaval ef bærinn vill samræma útlit aðalgötu bæjarins. Mér fannst alveg frábært að sjá hugmyndina hjá Beinni leið, nýjasta bæjarflokknum, sem stakk upp á ákveðinni litapallettu fyrir Hafnargötuna. Þannig er það víðast hvar erlendis. Það er nefnilega ekkert grín að velja liti á heila húseign. Ég sem listamaður á sjálf oft erfitt með að velja liti á stóra veggi. Að sjálfsögðu getur bærinn gert takmarkað því það er einkaframtakið sem hefur úrslitaáhrif í þessu öllu saman en bærinn getur lagt ákveðnar línur. Þetta eru ákveðin fræði sem ég kann ekki skil á en er ekki einhver hjá bænum sem getur kynnt sér hvað aðrar þjóðir gera í þessum efnum í miðbæjum? Hvað gerði Maastricht-borg til dæmis til að bæta miðbæ sinn? En eitthvað gerðu yfirvöld þar sem veldur því að um helgar er bærinn stútfullur af fólki sem flykkist frá nærliggjandi bæjum og borgum. Um helgar virkar Maastricht eins og margra milljóna borg þó svo að þar búi einungis um 120.000 manns? Hvernig væri að hvetja íbúa hér í bæ til að senda inn hugmyndir um betrumbætur á bænum? Er einhver hjá bænum sem getur tekið við hugmyndum bæjarbúa og jafnvel aðstoðað við að vinna úr þeim hugmyndum? Er metnaður fyrir þessu verkefni? Síðast en ekki síst, finnst okkur í lagi að búið sé í húsnæði á Hafnargötunni sem ætlað er í verslunarhúsnæði en þarna eru núna dregin fyrir svört gluggatjöld allan sólarhringinn? Þessi húsnæði eru jafnvel ekki einu sinni í þjónustu hreinsunardeildar bæjarins og heimilissorpi er fleygt á bak við þessi hús. Finnst fólki þetta í lagi? Við þurfum ekki að horfa lengra en til Hafnafjarðar til að sjá að þetta viðgengst ekki þar á bæ. Mér finnst mjög eðlilegt að æðstu menn í bæjarfélagi okkar hafi meiri áhuga og skoðanir á Hafnargötunni. Þeir hafa vald til að breyta og leggja línurnar að útliti miðbæjarins. Þarna vantar heildarhugsun,“ segir Lína Rut með áherslu og segist vera með hugmyndir sem vert er að skoða.

Hugmyndir að fegrun Hafnargötu

Það eru um tíu ár síðan Lína Rut tók ljósmyndir af Hafnargötunni og vann ákveðnar hugmyndir að útliti aðalgötu Reykjanesbæjar. Hún segist ekki fá frið fyrir þessari hugmynd sinni.

„Ég gerði fjöldann allan af hugmyndum en sýni bara nokkrar hér. Þetta eru skissur sem vel er hægt að breyta og betrumbæta. Frábært ef einhver annar er með aðrar hugmyndir eða hugmyndir um hvernig hægt væri að betrumbæta hugmyndir mínar. Ég er enginn fagmaður á þessu sviði heldur tala hér sem áhugasamur einstaklingur um fegrun bæjarins. Á myndunum er aðallega notaður mosi til skreytingar en ég vil endilega blanda fjölærum plöntum inn á milli og jurtum sem eru sígrænar allt árið eins og hnoðrum. Þeir eru að mestu sígrænir en blómstra mjög fallega á sumrin. Það er alþekkt og sannað að gróður hefur góð áhrif á lýðheilsu og bætir lífsgæði fólks. Þessar hugmyndir mínar snúast um sjálfbærni, að halda umhirðu í lágmarki og velja plöntur sem líta vel út allt árið eftir blómgunartíma sinn. Sólarmegin á Hafnargötunni gætu verið sólelskar plöntur en skuggamegin þær plöntur sem þola skugga,“ segir Lína Rut og fer á flug með hugmyndir sínar.

Getum við gert þetta saman?

„Ég átti fund á sínum tíma með Árna Sigfússyni og sýndi honum hugmyndirnar. Hann tók rosalega vel í þetta en svo fór sem fór, hann hlaut ekki brautargengi áfram sem bæjarstjóri. Það var svo gaman að funda með Árna, hann var svo frjór á þessum fundi að hann bætti um betur og víkkaði út hugmynd mína. Síðan eru liðin mörg ár en ég fæ ekki frið fyrir þessari hugmynd og þá þarf maður bara að gera eitthvað í því, ekki satt? Ég tel að nú sé lag því bæjaryfirvöld segjast vera komin vel á veg með að greiða niður skuldir. Mig langar að fá fólk í lið með mér og þarf bara nokkra einstaklinga sem eru til í að leggja hönd á plóg. Við getum gert þetta saman en bæjaryfirvöld þurfa að styðja þetta framtak. Þetta er hægt, þessar hugmyndir eru engin geimvísindi,“ segir hún.

Hvar eru túristarnir?

„Okkur gengur einnig illa að fá túrista hingað niður í bæ þrátt fyrir nálægð við flugstöðina. Það er eitthvað að. Hvað getum við gert betur í þeim efnum? Geta bæjaryfirvöld verið leiðandi þar? Geta þau hjálpað til við að efla menninguna í bænum okkar? Gert bæinn einstakan út á við, búið til ímynd sem vekur forvitni annarra? Getum við stuðlað að fjölgun skapandi einstaklinga, laðað þá til bæjarins? Getum við sameinað krafta þeirra listamanna sem búa hér? Væri hægt til dæmis að bjóða upp á listnám í Keili? Er hægt að fá fjárfesta í lið með okkur, þau stóru fyrirtæki sem eru hér á svæðinu til aðstoðar? Ljósanótt snýst mikið um listasýningar og í þær sækja gestirnir sem koma í heimsókn. Það eru oft listamenn sem eru kveikjan í að byggja upp hverfi sem eru í niðurníðslu í erlendum stórborgum, þeir leita í ódýrt húsnæði. Fólk fer svo að leita þangað, til listamannanna í leit að afþreyingu og þá kemur einhver og opnar kaffihús og eitt leiðir af öðru. Skapandi fólk skapar ákveðið andrúmsloft í kringum sig. Fólk er að leita að afþreyingu og fyrirtæki eru að leita að fólki. Það er bara að byrja, hittast og tala saman, þá fara hugmyndir af stað og eitthvað nýtt verður til. Mér þætti vænt um að heyra frá fólki sem langar að viðra hugmyndir sínar um þessi mál og gef hér upp netfang mitt fyrir þau sem vilja byrja samtalið með mér og fleirum áhugasömum,“ segir Lína Rut. linarut@pt.lu