Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fáir nýtt skipin sín betur
Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. VF/Sigurbjörn Daði
Laugardagur 3. júní 2023 kl. 06:24

Fáir nýtt skipin sín betur

Hulda Björnsdóttir GK 11 verður fyrsta nýsmíði Þorbjarnar hf. og kemur í haust. Ferskfisktogari af nýjustu gerð sem hægt verður að breyta á einfaldan hátt í frystiskip.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf., segir að það séu viss tímamót í sögu fyrirtækisins þegar nýr ferskfisktogari, Hulda Björnsdóttir GK 11, verður sjósettur í haust. Hann hefur að sjálfsögðu sínar skoðanir á sjávarútvegi eftir áratugi í rekstri fjölskyldufyrirtækis í Grindavík.

Við hefjum spjall okkar við Grindvíkinginn á öryggismálum sjómanna en Gunnar var forseti Slysavarnafélags Íslands þegar landssamtökin sameinuðust Hjálparsveit skáta og Flugbjörgunarsveitinni og til varð Slysavarnafélagið Landsbjörg í október 1999. Hann hefur lengi látið sig varða öryggismál sjómanna og öryggismál almennt. Hér á árum áður var það eitt aðalverkefni björgunarmannsins að ganga fjörur, leita að fólki og bjarga sjómönnum úr sjávarháska, svona var þetta um allt land. Þetta voru skelfilegir tímar í raun og veru þegar maður hugsar til baka. Svona höfðu öryggismál sjómanna verið áratugum saman og alla öldina kannski og einhvern veginn þótti mönnum eins og þetta væri eðlilegt ástand. En núna þegar svo mjög hefur dregið úr sjóslysum blasir það auðvitað við hve óeðlilegt þetta ástand var,“ segir Gunnar. Í dag snúast verkefni dagsins hjá Gunnari að stýra þessari burðarstoð atvinnulífsins í Grindavík og það er í mörg horn að líta. Illviðri hafa tíðum sett svip á yfirstandandi fiskveiðiár og nefnir Gunnar að nokkrum sinnum hafi frystitogararnir þurft að landa í Hafnarfirði vegna aðstæðna í innsiglingunni að Grindavíkurhöfn. Stundum hafi ástæðan ekki verið sú að erfitt hafi verið að sigla skipunum inn til hafnar heldur hafi bæst við óvissa um að þau kæmust út á ný. Þetta er þó ekki stórvægilegt vandamál hvað frystitogarana varðar því þeir eru þrjár til fjórar vikur  á veiðum í senn. Dagróðrarbátarnir þurfa að vera betur á varðbergi á hverjum einasta degi. Talið er að bæta megi til muna öryggi í innsiglingunni með byggingu nýs brimvarnargarðs sem sveitarfélagið og höfnin eru að frumhanna í samvinnu við Vegagerðina og sagt var frá í Fiskifréttum 23. mars síðastliðinn. Frá því að börn stofnandans, Tómasar Þorvaldssonar, tóku við fyrirtækinu hefur það haldið að sér höndum hvað varðar nýsmíði á skipum. Nú er hins vegar öldin önnur og nýtt skip í smíðum fyrir Þorbjörn hf. hjá skipasmíðastöðinni Astilleros Armon í Gijón á Spáni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fáir nýtt skipin jafn vel

„Það hefur verið sagt meira í gríni en alvöru að þetta sé í fyrsta skipti sem við systkinin  stöndum í því að láta byggja nýtt skip. Við höfum verið upptekin við það frá því við byrjuðum í þessari grein í kringum 1970 að nýta skipin. Fyrst síldarbátana sem sumir fóru nánast ekkert á síldveiðar fyrir norðan og austan heldur voru mest nýttir í netaveiðar og svo loðnuveiðar og rækjuveiðar. Þessu fylgdu miklar breytingar á skipunum í hvert sinn sem að endingu var svo breytt í línuskip. Það var því nánast búið að gera allt til þess að nýta þessa skrokka. Svo komu togararnir sem voru flestir smíðaðir í kringum 1972 til 1980. Það þurfti líka að slíta þeim út. Sumir voru reyndar seldir úr landi en öðrum var breytt hér innanlands í frystiskip eða rækjuskip. Ég held að fáir hafi nýtt skipin jafn vel og við Íslendingar. Norðmenn hafa annan hátt á. Þar verða menn að gjöra svo vel og endurnýja skipin á um það bil tíu ára fresti og selja þau skip sem á að endurnýja ella verða af styrk frá hinu opinbera til þess að smíða það næsta. Norðmenn lenda því nánast aldrei í neinu viðhaldi á sínum skipum. Þeir draga viðhaldið jafnvel á langinn þegar það ætti í raun að vera hafið. Þeir selja svo skipin áður en þeir þurfa að leggja út í viðhaldskostnað. Kannski kaupa Íslendingar þessi skip og þurfa þá að taka á sig viðhaldið. Norska ríkið styrkir líka innlendar skipasmíðastöðvar sem auðveldar mjög öll skipakaup. Þetta er gert víðar, til að mynda á Spáni. Ef erlend eignaraðild í sjávarútvegi væri heimil á Íslandi gætum við fengið veglegan styrk til nýsmíðinnar frá spænskum stjórnvöldum og mjög hagstæð kjör gegn því að skipasmíðastöðin yrði hluthafi í skipinu til ákveðins árafjölda.“

Þessi leið var farin þegar frystitogarinn Ilivileq var smíðaður. Forsagan er sú að HB Grandi gekk til samninga við Astilleros Armon skipasmíðastöðina um smíði á fimm milljarða frystitogara í maí 2017 sem átti að afhenda 2019 og átti að heita Þerney RE. Í apríl 2018 keypti Brim 34% hlut í HB Granda og ári síðar verður HB Grandi að Brimi hf. Fyrirtækið gekk inn í samninga HB Granda um nýsmíðina á Spáni en seldi það til Arctic Prime Fisheries á Grænlandi sem þá var 100% í eigu Brims. Þar sem erlent eignarhald í grænlenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er heimilt fékkst fullur ríkisstyrkur á Spáni til nýsmíðinnar.

Sett á flot í haust

„Þetta verður sem sagt fyrsta nýsmíðin okkar þarna á Spáni. En við höfum svo sem staðið í öllum þessum breytingum á skipastólnum og erum því ekki óvanir að vinna með skipasmíðastöðvum en bara á allt öðrum forsendum. Við erum núna að fara þá leið sem aðrir hafa farið og nefni ég þá skip eins og Breka VE og Pál Pálsson ÍS. Og núna síðast Baldvin Njálsson sem Nesfiskur lét smíða. Þetta eru skip sem Sævar Birgisson hjá Skipasýn hefur hannað. Skipin eru með skrúfur sem eru fimm metrar í þvermál og minni og hæggengari vél. Togspyrnan í þessum skipum er mun meiri en í þeim skipum sem við höfum gert út og samkvæmt reynslu Vinnslustöðvarinnar og Hraðfrystihússins – Gunnvarar, sparast 40% af olíu á hvert veitt kíló. Það er ekkert í dag sem sparar meira en hönnun af þessu tagi. Vetni, ammóníak eða metanól er ekki enn á boðstólum og þess vegna er þessi leið hagkvæmust. Við gengum frá okkar samningi um svipað leyti og Baldvin Njálsson var að koma til landsins og höfðum verið með þetta í undirbúningi í alllangan tíma áður.“ Sami skrokkur og skrokklag verður á nýsmíði Þorbjarnar og á Baldvini Njálssyni. Hann verður ferskfisktogari en er hannaður með þeim hætti að einfalt er að breyta honum í frystiskip. Sá háttur var hafður á svo auðveldara verði að selja skipið þegar og ef að því kemur því markaðurinn er stærri fyrir skip sem þannig eru hönnuð. Hönnunin kallaði að vísu á meiri einangrun í lestinni og aðeins meiri lengd en það breytti engu í verði. Skipið fær nafnið „Hulda Björnsdóttir GK 11“ , sem er nafn móður systkinanna, en hún var einn af stofnendum Þorbjarnar hf. 1953.

Hulda Björnsdótir GK 11.

Smíðin á áætlun

Lestarkerfið verður með svipuðu móti og er í nýjustu togurum Brims nema hvað það hefur verið uppfært miðað við nýjustu tækni. Um er að ræða fjarstýrðan lyftubúnað sem færir til körin og er einn maður niðri í lest sem stýrir búnaðinum. „Verkið er á tímaáætlun og vonandi verður það sett á flot í fyrsta sinn í haust. Hugmyndin er að það verði komið hingað eftir um það bil eitt ár.“

Ekki er í smáatriðum búið að ákveða með útgerðarmynstrið á nýja skipinu en Gunnar segir að það geti verið á Vestfjarðamiðum og landað í Grindavík því góður frágangur verður frá fyrstu stundu á fiskinum. Skipið verður með tvö troll og um borð verður flokkunarkerfi og góð aðstaða til blóðgunar um leið og fiskurinn kemur um borð. Þegar fiskurinn hefur verið slægður fer hann í flokkara sem flokkar hann ofan í körin og þau fara niður í lest. Allt er þetta tölvustýrt. Kerfið einfaldar líka flokkunina við löndun. Fiskurinn fer svo í frekari vinnslu í fiskiðjuveri Þorbjarnar. „Við getum unnið hann ferskan eða flakað hann eða flatt og sett í salt. Við getum flakað hann og framleitt léttsöltuð, fryst flök en svo getum við líka fryst flök og millilagt þau í landi. Við erum því með miklu meiri möguleika í vinnslu með þessu skipi en við höfum haft. Nýlega sameinuðum við þrjár vinnslur í eina þannig að vinnslan er núna öll á einu gólfi sem býður líka upp á mun meiri möguleika,“ segir Gunnar.

Tilfinningalíf manna

Stóru breytingarnar í innlendri fiskvinnslu síðustu árin hafa verið hin gríðarlega aukning í ferskfiskvinnslu en Gunnar segir að ekki síður hafi hlutur léttsaltaðs, frysts fisks aukist til dæmis inn á Spán. Þar sé einna mesti vöxturinn í íslenskri vinnslu á Íslandi í þorski og ýsu. Saltfiskur hafi hins vegar staðið í stað. Frá árinu 2019 hefur Þorbjörn hf. átt sölu- og markaðsfyrirtækið Arctic Saga í Barcelona, í félagi við tvo spænska aðila, sem hefur einnig selt fyrir aðra framleiðendur inn á Spán og Portúgal. Annars hafa alltaf verið miklar markaðssveiflur í viðskiptum með sjávarafurðir og síðustu árin eru engin undantekning. Mestu sveiflurnar hafa orðið vegna samdráttar í veiðum í Barentshafi. Covid árin og Úkraínustríðið hafa líka tekið í. Þá hefur ESB styrkt uppbyggingu fiskvinnslufyrirtækja í mörgum aðildarlandanna, þeim hefur því fjölgað mjög.  Þessar vinnslur hafa svo treyst á fisk úr Barentshafi, sem hefur minnkað umtalsvert og fiskur frá Rússlandi hefur farið í meira mæli til vinnslu í Kína.  Auðvitað hefur þetta hækkað fiskverð sem er gott fyrir útgerðina en á móti mikil áskorun fyrir fiskvinnslu á Íslandi að koma þessari fiskverðshækkun áfram inn á erlenda neyslumarkaði í samkeppni við styrktar fiskvinnslur Evrópusambandsins. Haustið 2019 bárust þær fréttir að stóru sjávarútvegsfyrirtækin tvö í Grindavík, Þorbjörn og Vísir, hefðu hafið viðræður um sameiningu fyrirtækjanna. Gunnar segir að samlegðaráhrif þessara tveggja fyrirtækja hefðu verið alveg borðleggjandi. Það liðu þó ekki nema fjórir mánuðir þar til tilkynnt var að fyrirtækin myndu ekki sameinast. „Ætli tilfinningalíf manna hafi ekki ráðið mestu um að svona fór. Það vildu allir vera fremst við borðið en það voru engin efni til þess að leysa úr þeim hnút. Því fór sem fór að þessu sinni en það veit svo sem enginn hvaða reglur eiga eftir að gilda um sjávarútveginn til framtíðar. Kannski eiga þau eftir að fá að stækka meira en þau geta í dag. Hugsanlega með hærra kvótaþaki. Það er alla vega ekki verið að setja hömlur á aðrar sameiningar og þar má til dæmis benda á matvörukeðjurnar. Þar ríkir nú heldur betur fákeppni. Ef menn horfa á samkeppni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við mun stærri fyrirtæki erlendis þá verður öllum ljóst að þau íslensku eru litlir fiskar í stórri tjörn. Ég vil auðvitað sem mesta fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi. Það þurfa að vera til stór fyrirtæki og minni, smábátar og öll flóran. Það hefði að mínu mati engar breytingar í för með sér þótt kvótaþakið yrði hækkað upp í 15-18% af heimildunum til stærri fyrirtækjanna og þá yrði uppsjávarfiskur meðtalinn í því kvótaþaki.“


Viðtal: Fiskifréttir