Hljómahöll Johnny
Hljómahöll Johnny

Mannlíf

Ein mynd á dag í 100 daga
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 20. febrúar 2021 kl. 06:13

Ein mynd á dag í 100 daga

– Ásdís Erla Guðjónsdóttir teiknar skopmyndir daglega og birtir á Instagram

„Ég ákvað um áramótin að setja smá áskorun á sjálfa mig – að teikna 100 myndir, eða eina mynd á dag í 100 daga. Ég er teiknari en það hefur setið svolítið á hakanum hjá mér þar sem ég er í mörgu öðru. Ég er í smíðakennslu og búningasaum þannig að teikningin hefur orðið útundan. Ég er að þessu aðallega fyrir mig að hafa teikniblokkina við hendina og setjast niður og teikna,“ segir Ásdís Erla Guðjónsdóttir, smíðakennari við Myllubakkaskóla í Keflavík, í viðtali við Víkurfréttir um áskorunina sem hún vinnur nú að.

Ásdís Erla er myndmenntakennari að mennt en hefur starfað sem smíðakennari í Myllubakkaskóla í Keflavík síðasta áratuginn. Það er þó hálfur annar áratugur síðan hún flutti til Reykjanesbæjar en Ásdís flutti með fjölskylduna frá Selfossi þegar eiginmaður hennar, Sölvi Rafn Rafnsson, hóf störf hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þegar við tókum hús á Ásdísi Erlu var hún að vinna í þrítugustu og fimmtu myndinni af þeim eitthundrað sem hún ætlar að teikna. Myndirnar setur hún á Instagram og þá aðallega til að setja pressu á sjálfa sig. Þar hefur uppátækið fengið góð viðbrögð en myndirnar má finna á reikningi undir nafninu Díserla.

Myndefnið sækir Ásdís Erla í líðandi stund, hvort sem það er lífshlaupið sem nú stendur yfir, kórónuveiran eða önnur málefni innanlands sem utan. Þorrablót á Zoom og fyrirlestur um þarmaflóruna í sama forriti rata einnig á myndir.

Þá bregður fyrir í myndunum hennar persónu sem heitir Vilfríður og er sjö ára frekjurófa. Þegar viðtalið var tekið hafði Vilfríði brugðið fyrir í tveimur myndum og svo skaut hún upp kollinum á þriðju myndinni á Valentínusardaginn þar sem hún var að gera pabba sinn gráhærðan. Áður hafði hún mætt áhorfendum í slæmu skapi því hún á ekki súrdeigsmömmu eins og öll önnur börn í skólanum og þá var hún líka búin að vera að ranghvolfa augunum eins og stelpan í áramótaskaupinu í þeirri von að augun myndu festast þannig.

„Ég veit ekki hvernig Vilfríður mun þróast. Kannski endar hún í barnabók, hver veit?

Aðspurð um það hvort hún verði ekki uppiskroppa með hugmyndir að teikningum segir Ásdís Erla að hún sé dugleg að punkta hjá sér hugmyndir. Stundum nær hún að vinna sér í haginn og leggur grunn að nokkrum myndum fram í tímann, sérstaklega ef hún veit að það séu annasamir dagar framundan í öðru.

Ásdís Erla teiknar myndirnar á pappír og myndar þær svo og setur texta á þær í myndvinnsluforriti áður en þær fara á -Instagram. Myndirnar setur hún svo í möppu til geymslu og frekari úrvinnslu síðar, því í dag veit hún ekkert hvert stefnan verður tekin með verkefnið og myndirnar. „Ég hef fengið fyrirspurnir á Instagram hvort ég ætli ekki að gefa þetta út,“ svarar Ásdís.

Hún hefur fengið sterk viðbrögð við myndunum og sérstaklega á vinnustað sínum, Myllubakkaskóla. Þar bíði vinnu-félagarnir við snjalltækin alla daga eftir nýrri mynd. Ekki er föst regla á því hvenær myndirnar koma inn á Instagram en það sé þó yfirleitt undir kvöld sem það gerist.

Ásdís Erla er myndmenntakennari að mennt og aðspurð hvort hún vilji ekki komast í þá kennslu frekar en að kenna smíðar segir hún svo ekki vera. „Ég elska að kenna smíði og finnst það eiginlega skemmtilegra en myndmenntakennslan. Þetta er svo fjölbreytt starf.“

Hún segist hafa poppað upp smíðakennsluna í skólanum frá því sem áður var. Smíðagripirnir eru öðruvísi í dag. Nú er verið að smíða standa undir snjallsíma og spjaldtölvur sem dæmi. Ásdís Erla er að kenna börnum frá öðrum bekk og upp í val í 10. bekk. Þá kennir hún einnig valgreinar í skiltagerð þannig að smíðakennslan er fjölbreytt. Hún segist elska það að vera í verkgreinum. „Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem manni finnst skemmtilegt og börnin gefa manni svo mikið,“ segir Ásdís Erla Guðjónsdóttir, teiknari og smíðakennari, í viðtali við Víkurfréttir.

Með fréttinni má sjá fleiri teikningar frá Ásdísi og sjónvarpsviðtal.

Díserla