Mannlíf

Bókakonfekt í Bókasafni Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 23. nóvember 2023 kl. 14:13

Bókakonfekt í Bókasafni Reykjanesbæjar

Árlega Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar verður haldið í kvöld, fimmtudagskvöldið 23. nóvember, kl. 20:00 í ráðhúsi Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12 þar sem rithöfundarnir Nanna Rögnvaldsdóttir, Sverrir Norland og Elín Hirst lesa upp úr nýjustu bókum sínum.
 
Valskan er söguleg skáldsaga eftir Nönnu Rögnvaldsdóttir hefur hlotið góða dóma og talað um „mögnuð skrif“ og einstaka aldarfarslýsingu. Prestsdóttirin Valka á sér ýmsa drauma. Helst af öllu langar hana að sigla til Kaupmannahafnar á vit ævintýranna, spássera um steinlögð stræti, sjá hallir og gullturna og hefðarfólk með hárkollur aka um í glæsivögnum.
 
Kletturinn er spennandi skáldsaga eftir rithöfundinn Sverri Norland. Bókin fjallar um fyrirgefningu, metnað, siðferðileg álitamál og ekki síst tilfinningasambönd karlmanna. Tuttugu ár eru liðin frá því að Gúi hrapaði til bana í útilegu í Hvalfirði og síðan hafa félagar hans, Einar og Brynjar, þurft að vinna úr því áfalli, hvor á sinn hátt – en hvorugur með miklum árangri.
 
Elín Hirst les upp úr bók sinni Afi minn stríðsfanginn. Skömmu eftir að Bretar hernámu Ísland í síðari heimsstyrjöldinni handtóku þeir alla Þjóðverja sem bjuggu á landinu, skipti þá engu hvort þeir studdu málsstað nasista eður ei. Karl Hirst, afi Elínar Hirst, var einn þessara manna og beið hans eins og hinna vist í fangabúðum í Englandi.
 
Gestir verða boðnir hjartanlega velkomnir með lifandi tónlistarflutningi Kósýbandsins sem samanstendur af Arnóri, Hjördísi, Hildi og Birnu sem ætla að bjóða upp á alvöru kósý jólastemmningu.
 
Boðið verður upp á kaffi og konfekt.


Bókakonfekt barnanna

Upplestur og söngur í Bókasafni Reykjanesbæjar fyrir öll börn laugardaginn 25. nóvember kl. 11.30 til 12.30

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bjarni Fritzson les upp úr nýútkominni bók sinni, Salka: Hrekkjavaka, sem fjallar um setti TikTok-stjörnuna Gabba Galdur sem setti af stað #graskeraáskorun. „Við vinirnir ákváðum að taka þátt enda VIP-boðsmiði í hræðilegasta draugahús Íslandssögunnar í boði og það á sjálfri hrekkjavökunni. Sú ákvörðun átti eftir að verða okkur dýrkeypt og hrinti af stað einni svakalegustu atburðarás lífs míns.“ (forlagid.is)

Höfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir les upp úr nýútkominni bók sinni, VeikindaDagur. Um bókina VeikindaDagur: „Þetta byrjaði þegar ég gleymdi að taka lyfin. Fimm dögum síðar ligg ég í líkhúsinu … dáinn og stjarfur á köldu stálborðinu. Dagur er eitthvað svo ólíkur sjálfum sér, með botnlausa matarlyst, dynjandi höfuðverk, gloppur í minninu og óteljandi spurningar. Hvað varð eiginlega um Breka? Af hverju er auga í klósettinu? Á hann kannski séns í Ylfu Dögg?“ (forlagid.is)

Regnbogaraddir, barnakór Keflavíkurkirkju, flytja nokkur lög.

Djús og piparkökur fyrir alla krakka :-) Aðgangur ókeypis og öll velkomin!


Viðburðurðirnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin.