Mannlíf

Bjartir tímar framundan
Inga Lára Jónsdóttir, útibússtjóri Securitas á Reykjanesi.
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 14. ágúst 2022 kl. 08:00

Bjartir tímar framundan

„Sem þriggja barna móðir í fullu starfi þá er sjaldan lognmolla í kringum mig en nákvæmlega þannig líður mér best,“ segir Inga Lára Jónsdóttir, nýr útibússtjóri Securitas á Reykjanesi. Auk þess að sinna nýrri stöðu sinni hjá Securitas þjálfar hún Súperform og spinning í Sporthúsinu í Reykjanesbæ.

Inga segir nýja starfið vera krefjandi og fjölbreytt en hún er spennt að takast á við þetta nýja verkefni. „Það tekur alltaf tíma að komast inn í nýtt starf en ég hef mjög góða tilfinningu fyrir starfinu og er þakklát fyrir hvað ég hef fengið góðar móttökur bæði frá viðskiptavinum og starfsfólki,“ segir hún. Covid hafði töluverð áhrif á Securitas á Reykjanesi, meðal annars vegna þess að hluti starfseminnar fór fram á Keflavíkurflugvelli. Inga segir allt vera að komast í eðlilegt horf aftur hjá fyrirtækinu. „Það eru mörg tækifæri á Reykjanesinu og bjartir tímar fram undan,“ segir hún.

Háleit markmið

Inga er með BS-gráðu í viðskiptafræði og MS-gráðu í forystu og stjórnun. Þá útskrifaðist hún einnig sem ÍAK einkaþjálfari árið 2013. Hún segir fátt skemmtilegra en að þjálfa og hjálpa fólki að vinna að markmiðum sínum. „Ég er mikil félagsvera og það gefur mér gríðarlega mikið að vinna með fólki og hjálpa því að ná sínum markmiðum,“ segir hún. Inga hjálpar ekki aðeins öðrum að ná markmiðum, hún setur sér markmið sjálf og gefur allt sem hún á til þess að láta þau verða að veruleika. „Ég hef alltaf sett mér háleit markmið, bæði í leik og starfi, og læt mig dreyma um þau öll þangað til ég hef siglt þeim í mark. Minn stærsti draumur þessa dagana er að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér varðandi nýja starfið mitt sem útibússtjóri. Ég ætla að gefa allt sem ég á og hef fulla trú á að ég nái mínum markmiðum,“ segir Inga. 

Hugsar um þjálfun sem áhugamál

Inga hætti í fótbolta í kringum 2010 eftir að hafa verið í íþróttinni nær allt sitt líf. Eftir það þurfti hún að finna sér annan vettvang til að fá útrás og byrjaði því í ræktinni, það varð til þess að áhugi hennar á þjálfun kviknaði. „Vikar, vinur minn í Lífsstíl, kom til mín og spurði hvort ég hefði áhuga á að kenna spinning hjá honum og ég hélt það nú. Í framhaldi af því fór ég í einkaþjálfaranám hjá Keili sem tók um eitt ár og síðan þá hef ég verið með annan fótinn í þessum bransa,“ segir Inga og bætir við: „Það hefur alltaf gefið mér mikið að fá að hjálpa öðrum í átt að betri lífsstíl og því hef ég aldrei hugsað þjálfunina sem mitt aðalstarf heldur meira sem áhugamál.“

Inga ásamt syni sínum
Skemmtilegast þegar það er nóg að gera

Utan vinnu finnst Ingu skemmtilegast að njóta samverunnar með fjölskyldu sinni og hreyfa sig. „Ég er mikill íþróttaálfur og er dugleg að hreyfa mig. Ég er dugleg að hjóla, fara í gönguferðir og spila annað slagið fótbolta með reynsluboltum héðan af svæðinu. Einnig er ég í nokkrum félögum, hópum og stjórnum sem hittast reglulega,“ segir hún og bætir við: „Ég er „pínu“ virk og finnst alltaf skemmtilegast þegar ég hef nóg að gera.“ Fjölskylda og vinir Ingu skipta hana mestu máli í lífinu, það er henni því hugleikið að rækta þau sambönd. „Ég er mjög næm á fólkið mitt og það er sjaldan hægt að leyna mig einhverju, þar spilar jafnvel forvitnin mín aðeins inn í. Mér líður best ef ég veit fyrir víst að fólkinu mínu líður vel og ég er mjög dugleg að rækta samband mitt við mína nánustu,“ segir Inga.

Inga og fjölskylda á brúðkaupsdeginum. Mynd: Eygló Gísla
Átti fullkominn brúðkaupsdag

Sumarið hennar Ingu hefur verið „yndislegt“ að eigin sögn en hún og eiginmaður hennar, Guðni, giftu sig þann 18. júní. „Við áttum hreint út sagt fullkominn dag með fjölskyldum okkar og vinum. Við skelltum okkur síðan í „brúðkaupsferð“ með prinsunum okkar þremur til Spánar þar sem við nutum þess að leika okkur saman frá morgni til kvölds,“ segir Inga en henni dreymir einnig um að fara í rómantíska brúðkaupsferð á fallegan stað með eiginmanninum. Aðspurð hvernig síðustu dagar sumarsins munu líta út hjá fjölskyldunni segir hún: „Það sem eftir lifir sumars ætlum við að ferðast innanlands og fara nokkrar ferðir í sveitina okkar,“ segir Inga.

Mynd: Eygló Gísla