„Tíminn hefur hreinlega flogið“
Akurskóli fagnar 20 ára afmæli. Áhersla er á vellíðan, traust og tækni.
Akurskóli í Innri-Njarðvík fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Skólinn var fyrst opnaður sem barnaskóli fyrir 1.–5. bekk í ört vaxandi hverfi, en hefur síðan gengið í gegnum miklar breytingar, bæði í stærð og áherslum. Í dag eru um 340 nemendur í skólanum og segir skólastjórinn, Sigurbjörg Róbertsdóttir, að sú stærð sé mjög heppileg.
Frá 550 nemendum niður í „þægilega stærð“
Akurskóli var fyrsti grunnskólinn í Innri-Njarðvík og tók á sínum tíma á móti börnum í 1.–5. bekk. Eftir því sem hverfið fyrir ofan Urðarbraut byggðist upp fjölgaði hratt í skólanum og bekkjum fjölgaði og nú eru þar nemendur í 1. til 10. bekk.
„Við fórum í 550 nemendur á álagstímum,“ segir Sigurbjörg. „Þá var þetta erfiðara. Nú erum við í 340 nemendum og það er þægileg stærð. Þá getum við stýrt betur og skilað betri árangri.“
Hún segir sögu skólans síðustu tvo áratugi bæði litríka og lærdómsríka. Vöxtur hverfisins, tilkoma Stapaskóla og breytt samfélag hafi haft mikil áhrif á daglegt starf. Og tíminn líður hratt. „Mér finnst ég eiginlega bara nýkomin hingað,“ segir Sigurbjörg og brosir. „Ég byrjaði árið 2012 og allt í einu eru komin 20 ár. Tíminn flýgur.“
Festa í námi – en meiri áhersla á líðan
Þrátt fyrir að margt hafi breyst frá því Sigurbjörg var sjálf í skóla telur hún að grunnurinn sé enn sá sami: festan í námskröfum og grunngreinum. Hins vegar hafi vægi líðanar og farsældar barna stóraukist, sem hún segir jákvæða þróun.
„Það er alltaf ákveðin festa í skólastarfi og hún þarf að vera til staðar,“ segir hún. „Auðvitað eigum við að leggja áherslu á árangur í grunngreinum en líðan, vellíðan og farsæld barna skiptir meira máli núna að mínu mati og það er gott.“
Sigurbjörg segir að Akurskóli leggi mikla áherslu á samband nemenda og kennara. Traustið sé lykill að góðu námi.
„Við höfum komið mjög vel út í rannsóknum á sambandi nemenda og kennara. Það er gott traust og það skiptir gríðarlega miklu máli. Þá getur nám farið fram.“
Stoðþjónusta og
einstaklingsmiðað nám
Til að styðja við líðan og nám nemenda hefur skólinn byggt upp öfluga stoðþjónustu og sértæk úrræði.
„Við erum með mikla stoðþjónustu, mikið einstaklingsmiðað nám, nemendaráðgjafa, sértækt námsúrræði og námsver,“ segir Sigurbjörg. Markmiðið sé að mæta ólíkum þörfum barna og skapa umhverfi þar sem þau upplifi öryggi og trú á eigin getu.
Símar, samfélagsmiðlar og ábyrgð fullorðinna
Símanotkun barna hefur verið heitt umræðuefni síðustu ár, ekki síst í tengslum við nýtt símabann í skólum. Sigurbjörg rifjar upp að blaðamaður hafi tekið viðtal við hana fyrir um 13 árum um sama mál.
„Þá sagði ég að símar væru komnir til að vera og ég held það enn,“ segir hún. Hún segist hins vegar ekki fagna lagasetningu um símabann.
„Mér finnst við, fullorðna fólkið, bera ábyrgð. Við erum með þetta tæki og við eigum að kenna börnunum að vera með það og nota það til hagsbóta,“ útskýrir hún.
Hins vegar telur hún samfélagsmiðlana vera stærra vandamál en símann sjálfan.
„Samfélagsmiðlar eru allt annað mál. Þeir voru ekki eins ríkjandi fyrir 13 árum þegar ég tók við þessum skóla. Þeir eru miklu meira vandamál. Síminn sem slíkur er ekki vandamál.“
Tækni og gervigreindí þjónustu náms
Tæknin gegnir sífellt stærra hlutverki í skólastarfi Akurskóla. Nemendur í 7. bekk og upp úr eru með eigið spjaldtölvunámstæki og skólinn er enn með hefðbundið tölvuver, sem skólastjóri segir skipta máli.
„Tölvuverið finnst mér mjög mikilvægt. Þar getum við kennt forritun og ýmsa skapandi hugsun,“ segir hún. Kennarar nýta einnig nýjustu tækni í undirbúningi kennslu, meðal annars gervigreind. „Við erum að nýta gervigreind. Kennarar nota hana til að undirbúa kennslu og aðlaga námsefni að mismunandi þyngd og þörfum nemenda. Þetta er mikið til hagsbóta.“
Að hennar mati er tæknin nú almennt að nýtast skólastarfinu vel – svo lengi sem hún sé notuð með markvissum hætti.
Litið um öxl og fram á veginn
Að lokum segir Sigurbjörg 20 ára afmæli Akurskóla kjörið tækifæri til að líta bæði um öxl og fram á veginn.
„Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegur tími og mikil saga,“ segir hún. „Við erum stolt af því sem hefur tekist á þessum 20 árum – og hlökkum til næstu ára.“

Foreldrafélag Akurskóla færði skólanum að gjöf 200.000 krónur til kaupa á myndavél sem á að nota til að skrá minningar úr skólanum.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, mætti í veisluna og færði Akurskóla bókagjöf.
Skólastjórnendur úr Reykjanesbæ fjölmenntu í afmælið og fögnuðu 20 árunum með afmælisbarninu.







