„Til hamingju, Reykjanesbær – þið eruð að gera fallega hluti hér“
Forseti Íslands hrósar skólastarfi í Reykjanesbæ.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands heimsótti á dögunum tvo grunnskóla í Reykjanesbæ, Háaleitisskóla og Akurskóla. Þar kynnti hún sér skólastarf með sérstakri áherslu á fjölmenningu, vellíðan og gildi virðingar í skólasamfélaginu.
Tilefni heimsóknarinnar í Akurskóla var 20 ára afmæli skólans, þar sem haldin var lífleg afmælishátíð. VÆB-drengirnir sáu um að loka dagskránni með miklum söng og stemningu.
„Það var sannarlega mikið fjör,“ sagði forsetinn eftir heimsóknina og bætti við að gleðin í skólanum væri „alveg áþreifanleg“.
Um morguninn hafði forseti heimsótt Háaleitisskóla sem nýverið hlaut hvatningarverðlaun Menntaverðlauna forseta Íslands fyrir metnaðarfullt starf og uppbyggilegt samstarf til margra ára.
Sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna
Í Háaleitisskóla eru um sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna. Halla segir það ekki veikleika heldur styrk þegar vel sé staðið að málum.
„Mér fannst sérstaklega merkilegt að þar eru sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna. Það er styrkleiki skólans, ekki veikleiki, ef vel er gert,“ segir hún og leggur áherslu á að nemendur séu á mikilli siglingu í íslenskunámi og andinn í skólanum sé mjög góður.
Forsetinn segir að sagan úr Háaleitisskóla sýni að fjölmenning geti orðið að mikilli auðlind. „Þið megið vera stolt af því sem er að gerast í þessum skóla, í alvöru,“ segir hún og á þar við bæði starfsfólk, nemendur og samfélagið í kringum skólann.
Viljum tala styrkleikana upp – ekki niður
Halla segist hafa áhyggjur af því að of mikið sé talað niður þegar kemur að menntakerfinu og samfélaginu í heild.
„Við getum talað okkur inn í ónýtt menntakerfi, við getum talað okkur inn í hægt hagkerfi, við getum talað okkur inn í átök og hatur,“ segir hún, en undirstrikar að sama gildi í hina áttina:
„Við getum líka talað okkur inn í gleði, hugrekki, virðingu, jákvæðni og styrkleika.“
Hún telur að nauðsynlegt sé að breyta því sem betur má fara í skólakerfinu, en að það verði að gerast í sameiningu. „Ég held að þetta sé sameiginlegt verkefni kennara, nemenda, foreldra og alls samfélagsins,“ segir forsetinn og spyr hvernig Ísland geti byggt eitt sterkasta menntakerfi heims.
Lítur til Finna – virðing fyrir kennurum er lykilatriði
Í máli Höllu kom einnig fram að hún hafi nýlega kynnt sér finnska skólakerfið, sem margir líta til sem fyrirmyndar.
„Ég spurði bæði kennara, skólayfirvöld og forseta Finnlands hvers vegna finnska skólakerfið nýtur svona mikillar virðingar,“ segir hún.
Svarið hafi verið einfalt: „Af því að við sýnum kennurum og kennarastéttinni og menntun virðingu.“
Forsetinn bendir á að eitt af gildum Akurskóla sé einmitt virðing – og það sé fyrsta gildið. „Ég held að virðing og gleði skili velgengni,“ segir hún og varar við því að stöðug leiðindi og átök um menntamál skili litlu nema stöðnun.
Fjölbreytt starfsfólk
styrkir skólann
Í umfjöllun um Háaleitisskóla nefndi forsetinn sérstaklega að þar starfaði líka kennarar og stjórnendur af erlendum uppruna, meðal annars aðstoðarskólastjóri frá Litháen sem talar nú reiprennandi íslensku.
Að hennar mati er það skýr styrkur fyrir skólann. Þegar starfsfólk endurspegli fjölbreytni nemendahópsins skapist betri tenging við börn og foreldra og trú á skólann eflist.
Halla tekur þó fram að það skipti miklu að vanda til verka í öllu fjölmenningarstarfi. „Við megum ekki gera þetta illa. Það þarf að gera þetta vel,“ segir hún og á þar við móttöku nýrra nemenda, tungumálastuðning og samstarf við foreldra.
„Til hamingju, Reykjanesbær.“
Heimsókn forseta Íslands í skólana í Reykjanesbæ einkenndist af jákvæðum tónum og hvatningu til að lyfta því upp sem vel er gert.
„Ég held að það sé margt gott að gerast í skólamálum og stundum gleymum við að lyfta því. Til hamingju, Reykjanesbær – þið eruð að gera fallega hluti hér,“ segir Halla að lokum.

Forsetahjónin Halla og Björn ásamt Sigurbjörgu Róbertsdóttur, skólastjóra og nemendunum Jaka og Guðrúnu.







