VF jólalukka 25
VF jólalukka 25

Mannlíf

„Jólin eru friður  og mannréttindi“
Miðvikudagur 24. desember 2025 kl. 06:40

„Jólin eru friður og mannréttindi“

Árið 2025 var viðburðaríkt hjá Gunnhildi Þórðardóttur og fjölskyldu hennar – ferðalög til Barcelona með lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, fjöldi listasýninga bæði heima og erlendis og útgáfa sjöundu ljóðabókar hennar, Vetrarmyrkurs. Hún blandar saman íslenskum og breskum jólahefðum, bakar mince pies og ensku jólakökuna, fer á jólatónleika og nýtur samveru með fjórum sonum sínum. Í þessu jólaviðtali rifjar Gunnhildur upp minningar frá bernskujólunum, talar um jólaandann sem boðskap friðar og mannréttinda og deilir draumum um fleiri ferðalög, Skáldasuð-hátíðina og gjöfina sem hún óskaði að heimurinn fengi – frið um allan heim.

Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Árið var viðburðaríkt, ég fór á Aldrei fór ég suður í fyrsta sinn með elsta syni mínum en hann var í Lýðskólanum á Flateyri í heilan dásamlegan vetur og útskrifaðist þaðan 2.maí. Ég útskrifaði næsta elsta soninn sem stúdent og ég fór með starfsfólk FS til Prag í maí. Næst yngsti sonur okkar var í körfuboltabúðum í Serbíu á meðan við fjölskyldan fórum til Barcelona í júní með yngsta soninn og dóttur okkar með frábæru lúðrasveitinni okkar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem héldu 5 flotta tónleika á skemmtilegri þjóðalagahátíð. Ég hélt þrjár einkasýningar og tók þátt í þremur samsýningum bæði hér heima og erlendis. Ég gaf út mína sjöundu ljóðabók Vetrarmyrkur og við ferðuðumst mikið innanlands. Ég hélt líka skemmtilega lista - og ljóðahátíð í Duushúsum og sundlauginni í mars og hef verið með amk 10 ljóðaupplestra.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Jólin jólin alls staðar með Ellý Vilhjálmsdóttur og jólasöngvum kórsins í Kings College Cambridge.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Love Actually

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Að baka breskar jólahefðir eins og mince pies og ensku jólakökuna sem ég vökva með sherry í nokkrar vikur.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Samvera með börnunum mínum og fara á jólatónleika með þeim og barnamessan á aðfangadag.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Já, allt sem börnin mín hafa búið til og gefið manni, sérstaklega það sem þau gera í leikskólanum en þegar ég var barn þá var það Barbie-húsið sem mamma og pabbi bjuggu til fyrir mig og systur mínar.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir, áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Já, ég elska jólin og hef alltaf verið jólabarn. Ég man örugglega eftir fyrstu jólunum þegar ég var fimm eða sex ára og að fá að setja jólastjörnuna efst á tréð og líka að ég fékk alltaf möndluna í grautnum systrum mínum til mikillar armæðu.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Ég elska heimagert og við eigum mikið af slíku skrauti, sérstaklega það sem maður hefur gert með börnum sínum. Ég á líka gamalt skraut frá því ég var lítil sem mér þykir mjög vænt um því maður fær svo mikla nostalgíu um jólin.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Þau breyttust þegar ég flutti til Englands þannig að nú gerum við svona blöndu af breskum og íslenskum jólahefðum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Að hafa hangikjöt og uppstúf á aðfangadag og breskan jólamat, kalkún með brussel sprout og öllu saman á jóladag. Mér finnst uppskriftirnar hennar Nigellu Lawson æðislegar.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Það væri gaman fyrir krakkana að upplifa bresk jól aftur.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Já, ég trúi á að sannur jólandi sé boðskapur um frið og mannréttindi og það myndi hafa mikla þýðingu fyrir allan heiminn.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Meiri samvera með fjölskyldunni og fleiri ferðalög.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Frið um allan heim, sérstaklega fyrir Frjálsa Palestínu, Úkraínu og fólkið í Súdan.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Ég geri aldrei áramótaheit en ég ætla að fara með Skáldasuð ljóða - og listahátíðina mína í útrás til Seyðisfjarðar næsta vor. Gleðileg jól! 

VF jól 25
VF jól 25