„Íslensk jól eru alvöru jól – hitt bara eftirlíking“
Ásta Óskarsdóttir heldri borgari horfir yfir árið 2025 með þakklæti og hlýju. Fjölskyldan, börn og barnabörn, skipa stærstan sess í huga hennar og hún segir dýrmætustu sigra ársins felast í því að sjá þau vaxa, dafna og skapa nýjar minningar saman. Í þessu viðtali rifjar Ásta upp jólin í bernsku þegar allt var þrifið hátt og lágt, jólatréð skreytt á Þorláksmessu og stofunni svo læst fram á aðfangadag – og segir jafnframt frá því hvernig jólin hafa róast með árunum, hvers vegna íslensk jól eru „alvöru jól“ og hvað jólaandinn þýðir í hennar huga.
Hvernig var árið 2025 hjá þér og þinni fjölskyldu – og hvað stendur upp úr?
Árið 2025 hefur verið viðburðaríkt á marga vegu, fullt af bæði smærri og stærri sigrum og áföngum hjá fjölskyldunni. Þegar ég lít til baka er ég fyrst og fremst þakklát fyrir að sjá þau vaxa, dafna og þroskast, víkka út sjóndeildarhringinn og skapa nýja reynslu og minningar. Í mínum huga er það dýrmætast.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
Ég er næstum alæta á tónlist og á hverju ári bætast inn ný jólalög sem heilla mig. Þau taka jafnvel sæti eldri laga á „vinsældalistanum“ mínum, ef svo má segja. Það er erfitt að nefna bara eitt.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Ég hef aldrei verið mikil bíómanneskja en margar jólamyndir eru góðar. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að sjá hvað Home Alone nær enn til fólks – bæði ungra og gamalla. Við „heldri“ skemmtum okkur alveg jafn vel og krakkarnir.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín – og hvers vegna?
Mér þykir sérstaklega vænt um að kenna börnum, og nú barnabörnunum, jólalög og raula með þeim. Það skapar alltaf ljúft andrúmsloft og fallegar minningar.
Hvað finnst þér ómissandi á jólunum?
Fyrir utan fjölskyldusamveruna, sem er algjörlega númer eitt, þá finnst mér fátt toppa jólatónleika á aðventunni. Yfir jólin vil ég líka eiga góðar bækur til að lesa. Svo tek ég mér alltaf stund til að muna eftir þeim sem minna mega sín, eða glíma við sorg og erfiðleika af einhverju tagi, og hugsa jafnframt til þeirra sem kvatt hafa á árinu og hafa snert líf mitt.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem þú gafst eða fékkst?
Ég hef fengið óendanlega margar yndislegar gjafir í gegnum árin og er yfirleitt bara virkilega þakklát. Ein sérkennilegasta minningin er þó þegar vinkona mín ruglaðist á pökkum og rétti mér pakka sem átti að fara til annarrar vinkonu. Í honum var hlutur í lit sem hún vissi að ég ætti frekar erfitt með að hafa í mínu umhverfi. Hin vinkonan lenti í hinu nákvæmlega sama. Við höfum oft hlegið mikið að þessu síðan.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Fyrstu jólin sem ég man eftir eru þegar ég var nýorðin fimm ára. Síðar áttaði ég mig á að svona voru jólin ár eftir ár og undirbúningurinn alltaf nokkurn veginn sá sami.
Allt var þrifið hátt og lágt – loft, veggir, gluggar, skápar, kommóður, skrautmunir, silfrið fægt og dúkar pressaðir. Teppin voru þrifin áður en jólatréð var sótt og sett upp á Þorláksmessu. Ekki mátti setja upp jólaskraut nema þar sem búið var að þrífa undir.
Jólatréð var skreytt um kvöldið eða fram á nótt og fengum við krakkarnir að taka þátt eftir því sem við réðum við, án þess að skemma eða slasast. Að því loknu var stofunni læst og ekki opnað inn aftur fyrr en seint á aðfangadag – og þá bara til að kíkja.
Við vorum fimm systkini og fórum í jólabaðið í ákveðinni röð. Svo í ný jólaföt sem mamma hafði sjálf saumað. Pabbi kom oft seint heim úr búðinni – hann rak raftækjaverslun í miðbæ Reykjavíkur og var iðulega að redda einhverjum bilaðri seríu, batteríum eða síðustu jólagjöfinni.
Maturinn var klukkan sex og hlustað á jólamessu á meðan. Svo var gengið frá og við krakkarnir máttum opna einn pakka eftir að hafa tekið þátt í fráganginum eins og við gátum, án þess að þvælast fyrir öðrum. Kvöldið var rólegt og ljúft, tónlist á fóninum og allir tiltölulega snemma í háttinn – örþreyttir eftir massívan undirbúning.
Mér finnst eiginlega að kynslóð foreldra minna eigi skilið orðu fyrir að standa í þessu, ár eftir ár.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða keypt skraut? Áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Bæði og – það fer svolítið eftir „þema“ ársins. Ég og dætur mínar erum miklar föndurkonur og höfum oft átt góðar stundir saman í jólaföndri. Það eru dýrmætar samverustundir. Ég á enn nokkuð af skrauti frá því ég var krakki en hef gefið megnið af því á góða staði, enda skreyti ég mjög lítið sjálf núorðið.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Þau urðu rólegri og undirbúningurinn miklu minni. Ég reyni að forðast stressið og haga mér næstum eins og prinsessa – megnið af álaginu er nú komið á herðar dætra minna og þeirra fjölskyldna.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Hamborgarahryggur á aðfangadag og hangikjöt á jóladag – ef ég er með fjölskyldunni. Það er ákveðin hefð sem situr í mér.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera – og af hverju?
Ég hef alltaf verið fyllilega sátt þar sem ég hef eytt jólunum hingað til. Ég er samt ein af þeim sem finnst íslensk jól vera svona „alvöru jól“ – annað eru eiginlega bara eftirlíkingar.
Trúir þú enn á jólaandann? Hvað þýðir hann fyrir þig?
Já, ég geri það. Fyrir mér er jólaandinn fyrst og fremst kærleikur sýndur í verki þegar enginn er að horfa.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Smá kraftaverk – en ekki í pakka með slaufu.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Ég myndi losa mannkynið við græðgi í öllum sínum myndum.
Ertu með áramótaheit – eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég hef aldrei verið mikið fyrir dramatísk áramótaheit, mér henta miklu betur skammtímaheit. Ég hef ekkert sérstakt planað fyrir næsta ár annað en að reyna að láta sem flesta daga enda með bros á vör.








