Mannlíf

„Betra er seint en aldrei!“
Hún er drullufúl yfir þeim takmörkunum sem voru settar á nýverið. Sigrún Gróa lýsir sér sem fæddum og uppöldum Keflvíkingi, tónlistarkennara, eiginkonu og fjögurra barna móður.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 2. apríl 2021 kl. 09:57

„Betra er seint en aldrei!“

Sigrúnu Gróu Magnúsdóttur finnst líklegt að hún fari að sjá gosið þegar búið að finna rétta útbúnaðinn fyrir alla fjölskyldumeðlimi

„Um páskana ætla ég ásamt eiginmanninum að mála stofuna heima hjá okkur og gera fínt. Njóta þess að eiga næðisstundir með börnunum, fara í göngutúra og borða góðan mat – og síðast en ekki síst páskaegg. Því miður fellur matarboð hjá foreldrum mínum og systkinum og fjölskyldum niður annað árið í röð þar sem við erum samtals nítján. Það verður haldið vonandi sem fyrst þegar aðstæður leyfa,“ segir Sigrún Gróa Magnúsdóttir þegar hún var spurð hvernig hún ætlaði að verja páskunum.

– Eru fastar hefðir hjá þér um páskana?

„Síðustu 25 ár höfum við systkinin og afkomendur hist á föstudaginn langa og fengið fiskisúpu sem pabbi eldar. Ótrúlega skemmtilegt kvöld með brauðbollum, eftirrétt og góðum sögum. Á páskadegi er svo náttúrlega hin árlega páskaeggjaleit sem krakkarnir bíða spenntir eftir. Svo fáum við alltaf páskamatinn hjá tengdó, sem verður á nýjum stað í ár.“

– Páskaeggið þitt?

„Ég hef verið mjög hefðbundin í páskaeggjavali og er það gamla góða Nóaeggið sem er best. Ég er þó heppin að börnin fjögur eru með fjölbreyttan smekk og fæ ég að sjálfsögðu að smakka hjá þeim.“

– Uppáhaldsmálsháttur?

„Betra er seint en aldrei!“

– Hvað verður í páskamatinn?

„Tengdó sér um að ákveða það. Ætli það verði ekki páskalæri. Fyrsta og eina skiptið sem ég hef ákveðið og séð um páskamáltíð var í fyrra, út af Covid. Annars höfum við alltaf verið hjá tengdó á páskadag síðan við byrjuðum að búa.“

– Ertu búin að fara á gosstöðvar og ef hvernig var upplifunin?

„Við erum ekki búin að kíkja á gosið með eigin augum en ég er búin að skoða allar myndir og myndbönd sem hægt er að skoða á samfélagsmiðlunum. Mér finnst líklegt að við förum einhvern tímann að sjá þetta þegar það er búið að finna rétta útbúnaðinn fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Mér skilst að þetta sé ólýsanlegt.“

– Hvað viltu segja nú þegar nýjustu takmarkanir voru settar vegna Covid-19?

„Drullufúl yfir þessum takmörkunum. Þær settu margt úr skorðum hjá okkur, t.d. átti næstyngsti sonurinn að taka áfangapróf þann 26. mars í tónlistarskólanum ásamt nokkrum öðrum nemendum. Nokkuð sem hann er búinn að undirbúa í nokkrar vikur. Vitum ekkert hvenær hægt verður að taka það. Svo ætluðum við í ferðalag ásamt vinahópnum sem þurfti að fresta, alveg glatað. Þannig að við tóku tveir dagar í að væla og skæla og svo þurfti bara að jafna sig og fara að gera eitthvað skemmtilegt. Við vitum að þetta líður hjá og þetta varð að gera því ekki viljum fleiri stórar bylgjur. Hreinsum þetta upp strax og eigum gott sumar.“

Fjölskyldan á eftir að fara og sjá gosstöðvarnar.