Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Mannlíf

„Ævintýrið um norðurljósin“ á verðlaunapalli í Rússlandi
Sunnudagur 16. júní 2019 kl. 07:37

„Ævintýrið um norðurljósin“ á verðlaunapalli í Rússlandi

Alexandra Chernyshova varð í öðru sæti í alþjóðlegri tónskáldakeppni í Moskvu fyrir tónsmíði sína á óperuballettinum „Ævintýrið um norðurljósin“ en óperan var þýdd yfir á rússnesku. Óperan var frumsýnd á Íslandi í Norðurljósasal, Hörpu fyrir einu og hálfu ári. Að verkinu komu fjölmargir einsöngvarar, tveir barnakórar ásamt skólakór Stóru-Vogaskóla, ballettskóla og fjórtán manna kammerhljómsveit.

„Það er ekki á hverju ári sem óperuverk, sem er samið fyrir börn, fær viðurkenningu í Rússlandi en landið er þekkt fyrir sígilda tónlist og státar sig af mörgum heimsþekktum tónskáldum,“ segir Alexandra sem er búsett í Reykjanesbæ og kennir tónlist við Stóru-Vogaskóla í Vogunum.

Áður hafði Alexandra m.a. stofnað og rekið Óperu Skagafjarðar í Skagafirði sem setti t.a.m. upp La Traviata, Rigoletto og Óperudrauginn, sett á laggirnar eigin söngskóla og haldið úti stúlknakór fyrir Norðurland vestra, Draumaraddir norðursins.

Alexandra segir að óperan „Ævintýrið um norðurljósin“ sé vetrarævintýrasaga þar sem amman Valdís segir barnabörnum sínum sögu þegar þau voru í heimsókn hjá henni í vetrarfríinu sínu. „Ævintýrasagan er um ást tröllastelpu og álfadrengs, íkornans Ratatoski, álfadrottningarinnar sem verndar samhljóminn og lög íbúa heimanna níu, hinn volduga Njörð og konu hans Skaða. Sagan fjallar um hvernig falleg ást álfadrengs og tröllastelpu, Triestu, bjó til norðurljósin sem við dáumst að á hverjum vetri á Íslandi. Ævintýralandið og nútíminn koma saman í ævintýri um norðurljósin.“ Samhliða frumsýningunni var gefin út bókin „Ævintýrið um norðurljósin“, sagan í heild sinni auk hljóðsögu. Myndskreytt af Önnu G. Torfadóttur og lestur í höndum Guðrúnar Ásmundsdóttur leikkonu og þýðing í höndum Árna Bergmann.

Áður hafði Alexandra samið óperuna „Skáldið og biskupsdóttirin“ um vináttu Hallgríms Péturssonar og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur við handrit Guðrúnar Ásmundsdóttur og var sýnd í Hallgrímskirkju í Saurbæ, Hvalfirði árið 2014 við góðar undirtektir. Óperan var flutt á síðasta ári  í virtum tónlistarháskóla í Kænugarði, heimabæ Alexöndru og skóla sem hún stundaði tónlistarnám í, í tilefni 150 ára afmælis háskólans. Óperan var sungin á úkraínsku með hljómsveit, kór og einsöngvurum. Áður hafði óperan verið kynnt í einum virtasta skóla Moskvu, Gnessin tónlistarakademíu, og í haust verður hún kynnt í Pétursborg.

Nánar er hægt að sjá óperuballettinn „Ævintýrið um norðurljósin“ á face­book-síðunni: https://www.facebook.com/aevintyridumnordurljosin/

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna