Mannlíf

​Íslensk tónlist við grískt verk
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 11. febrúar 2024 kl. 10:25

​Íslensk tónlist við grískt verk

Tónlist Smára Guðmundssonar við leiksýninguna Oblivion er komin út

Sandgerðingurinn Smári Guðmundsson var á síðasta ári fenginn til að semja tónlist við dansleiksýninguna Oblivion eftir Christina Kyriazidi sem var sett upp Technochoro Fabrika í Aþenu á Grikklandi. Tónlistin úr verkinu er nú komin út hjá Smástirni í samvinnu við Öldu Music og er hægt að nálgast hana á öllum helstu streymisveitum.

Oblivion vakti verðskuldaða athygli þegar það var frumsýnt í Aþenu í nóvember 2023 og er nú verið að undirbúa uppsetningu þess í Berlín í Þýskalandi. Þar verður verkið frumsýnt í ACUD Theater í febrúar næstkomandi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Tónlistin var að mestu samin þegar Smári dvaldi á Grikklandi snemma árs 2023 og var svo unnin og tekin upp á Íslandi í Stúdíó Smástirni og Stúdíó Bambus. Einvalalið hæfileikafólks lagði hönd á plóg við vinnslu tónlistarinnar. Halldór Lárusson lék á trommur, Matthías Stefánsson á fiðlur og víólur, Fríða Dís söng sem og Stefán Örn sem líka lék á píanó ásamt því að hljóðblanda verkið og sjá um útsetningar og upptökustjórn með Smára. Höfundurinn sjálfur, Smári Guðmundsson, lék á gítar, bassa, bouzouki og hljóðgervla. Hljómjöfnun var í höndum Sigurdórs Guðmundssonar og það er Katerina Arvaniti sem er höfundur ljósmyndar sem prýðir útgáfuna.

Sérstaklega er mælt með því að setja Oblivion á fóninn við lestur eða þegar þarf að gleyma sér við einhverja iðju.

Með Smástirni í rúm fimm ár

Smári Guðmundsson hefur rekið útgáfufyrirtækið og stúdíóið Smástirni í rúm fimm ár. Hann hefur gefið út tónlist undir sínu eigin nafni og einnig með hljómsveitunum Klassart, Lifun og -Tommygun Preachers. Þá samdi Smári söngleikinn Mystery Boy sem var valinn áhugasýning ársins af Þjóðleikhúsinu árið 2018. Undanfarin ár hefur hann unnið með listahópum frá Þýskalandi og Grikklandi við að taka upp og semja tónlist fyrir útvarpsleikrit og dansverk. Árið 2022 gaf Smári Guðmundsson út smáskífuna Crete sem var unnin á Krít í Grikklandi og einnig hljóðverkið Aging sem var samið fyrir dansverk og frumflutt á hátíðinni „We Love Stories“ sem fór fram á Krít. Meðal þess sem Smári hefur fengist við í hljóðverinu er að stjórna upptökum á plötu Fríðu Dísar, Lipstick On, sem tilnefnd var til Kraumsverðlauna sem og á plötu hennar, Fall River, en báðar plöturnar komu út á árinu 2022.

Á tónleikum í Hljómahöll

Smári verður einnig á ferðinni í Hljómahöll þann 15. febrúar nk. kl. 20:00 þar sem hann mun spila á tónleikum með hljómsveitinni R.H.B. (Rolf Hausbentner Band) og Fríðu Dís, systur sinni. Miðasala er á tix.is.

Hljómsveitin R.H.B.

Hljómsveitin R.H.B. (Rolf Hausbentner Band) var stofnuð árið 2020. Hljómsveitin hefur gefið út fimm lög og fengið spilun bæði á Rás og og Xinu. Lagið Set me free, sem hljómsveitin gaf út ásamt Fríðu Dís, sat m.a. nokkrar vikur á vinsældarlista Rásar 2. Hljómsveitin vinnur nú að sinni fyrstu heilu plötu. Með hljómsveitinni koma fram Pálmar Guðmundsson, Ólafur Ingólfsson, Smári Guðmundsson, Hlynur Þór Valsson, Ólafur Þór Ólafsson og Birta Rós Sigurjónsdóttir. Sérstakir gestir verða Fríða Dís Guðmundsdóttir og Grétar Lárus Matthíasson. Frekari upplýsingar um hljómsveitina er að finna á samfélagssíðum hennar. https://linktr.ee/rolfhausbentnerband

Fríða Dís

Fríða Dís hefur starfað sem tónlistarmaður frá unglingsaldri, aðallega sem söngkona og texta- og lagasmiður með Klassart, Eldum og Trilogiu. Árið 2020 hóf hún sólóferil og hefur síðan þá gefið út þrjár plötur hjá útgáfufyrirtækinu Smástirni; Myndaalbúm, Lipstick On og Fall River. Platan Lipstick On hlaut tilnefningu til Kraumverðlaunanna 2022 og í plötugagnrýni í Morgunblaðinu sama ár skrifar Arnar Eggert Thoroddsen: „[…] virkilega vel heppnað verk. Með því betra sem ég hef heyrt á þessu ári“. Fríða hefur þar að auki tekið þátt í fjölda verkefna með ýmsu tónlistarfólki, t.d. Soffíu Björgu, Íkorna, Ingu Björk, Baggalúti og Jónasi Sig og verið iðin við tónleikahald. Fríða Dís vinnur nú að sinni fjórðu breiðskífu sem er væntanleg seinna á árinu.