Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Íþróttir

Úrslit helgarinnar í Mjólkurbikarnum
Jóhann Þór Arnarsson með boltann í leik Víðis og Fram í gær. Jóhann leikur með Víði í ár á láni frá Keflavík. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 2. maí 2021 kl. 17:35

Úrslit helgarinnar í Mjólkurbikarnum

Grindvíkingar áfram hjá körlum og konum – Njarðvíkingar fóru léttilega í næstu umferð

Suðurnesjaliðin léku í Mjólkurbikar karla og kvenna í knattspyrnu um helgina. Leikið var í annari umferð karla og fyrstu umferð kvenna.

Mjólkurbikar kvenna:

Grindavík - Hamar 2:0

Sólning
Sólning

Grindvíkingar tóku á móti liði Hamars frá Hveragerði á föstudag. Mikill vindur sem stóð á annað markið setti sitt mark á leikinn og Grindavík lék á móti honum í fyrri hálfleik. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Grindvíkingar voru talsvert meira með boltann og áttu meðal annars tvö sláarskot en inn vildi boltinn ekki.

Grindvíkingar fagna marki í leiknum gegn Hamar. Mynd af Facebook-síðu UMFG

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri, inn vildi boltinn ekki fyrr en að á 72. mínútu þegar Írena Björk Gestsdóttir braut ísinn með marki sem hún skoraði með bylmingsskoti utan teigs. Skömmu fyrir leikslok (86') fékk Grindavík svo hornspyrnu og það var Christabel Oduru sem afgreiddi boltann í netið.

Lokatölur 2:0 fyrir Grindavík sem er komið í aðra umferð Mjólkurbikarsins þar sem þær mæta liði SR þann 17. maí.

Það er skemmtilegt að segja frá því að Grindavík notaði sextán leikmenn í leiknum og af þeim eru ellefu stelpur uppaldnir Grindvíkingar.


Mjólkurbikar karla:

Álafoss - Njarðvík 0:5

Njarðvíkingar áttu ekki í vandræðum með lið Álafoss sem þeir mættu í gær, laugardag.

Bergþór Ingi Smárason skoraði tvívegis fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik (13' og 19').

Arnar Helgi Magnússon kom Njarðvík í 0:3 á 70. mínútu og undir lok leiks bættu þeir Zoran Plazonic (88') og Alexander Magnússon (90') við sitthvoru markinu.

Með sigrinum er Njarðvík því komið í 32 liða úrslit Mjólkurbikarsins.


Þróttur - Grótta 1:3

Þróttarar féllu úr bikarnum í gær, laugardag, þegar liðið tapaði gegn Gróttu.

Grótta komst yfir á 24. mínútu en Ruben Lozano jafnaði fyrir Þrótt úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks (45'+4).

Í síðari hálfleik skoruðu Gróttumenn tvívegis án þess að Þróttur næði að svara fyrir sig. Andy Pew, fyrirliði og aðstoðarþjálfi Þróttar, fékk að líta rauða spjaldið á 77. mínútu.


Grindavík - Hvíti riddarinn 3:0

Grindvíkingar tryggðu sér sæti í 32 liða úrslitum þegar þeir tóku á móti Hvíta riddaranum á Grindavíkurvelli í dag.

Fyrri hálfleikur var markalaus en á 62. mínútu kom Tiago Manuel Silva Fernandes heimamönnum yfir. Sjö mínútum síðar (69') bætti Josib Zeba öðru marki við og það var svo Sigurður Bjartur Hallsson sem átti lokaorðið þegar hann bætti þriðja og síðasta marki Grindvíkinga við á 88. mínútu.


Víðir - Fram 0:2

Víðismenn tóku á móti Fram á Nesfisk-vellinum í gær en það voru Framarar sem höfðu betur í gær. Fram skoraði tvívegis, einu sinni í hvorum hálfleik, en Víðir náði ekki að skora.

Þrátt fyrir tapið voru Víðismenn að gera margt gott í leiknum, góð barátta var í liðinu og ljóst að Víðismenn eru með lið sem ætti ekki að dvelja lengur en eina leiktíð í þriðju deildinni sem hefst um næstu helgi.

Í ár eru 34 ár síðan þessi tvö lið mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli, árið 1987. Þá stóðu Framarar uppi sem bikarmeistarar eftir að hafa lagt Víði 5:0. Liðin mættust aftur 1991 í undanúrslit bikarsins en þá hefndu Víðismenn sín og slógu Fram úr keppni í sextán liða úrslitum. Víðir lagði svo Stjörnuna í átta liða úrslitum en tapaði 3:1 fyrir FH í undanúrslitum.

Í spilaranum hér að neðan má sjá upptöku af úrslitaleik Fram og Víðis 1987 en Keflvíkingurinn Ragnar Margeirsson varð bikarmeistari með Fram það árið.