Flugger
Flugger

Íþróttir

Það munaði svo litlu!
Einar Páll Magnússon og Dagur Ingi Valsson sýndu sínar bestu hliðar í dag. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2024 kl. 22:27

Það munaði svo litlu!

Hetjulegri baráttu Keflvíkinga lauk í vítaspyrnukeppni

Frábærri sigurgöngu Keflvíkinga í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu lauk í dag eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni. Baráttugleði og sterk liðsheild Keflvíkinga kom Völsurum úr jafnvægi og úrslit leiksins hefðu getað fallið með báðum liðum.

Ásgeir Orri Magnússon átti góðan dag á milli stanganna og varði oft mjög vel, þá var nafni hans, Ásgeir Páll Magnússon, gríðarlega vinnusamur og sterkur í vörn og sókn auk þess að skora gott mark.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Að öðrum ólöstuðum var markvörðurinn Ásgeir Orri Magnússon einn af bestu mönnum vallarins.

Fleiri Keflvíkingar áttu góðan leik í dag, eiginlega allir – en senuþjófinum var skipt inn á þegar sjö mínútur voru eftir af framlengingu og hann kom, sá og sigraði. Gabríel Aron Sævarsson, sá yngsti á vellinum, skoraði á lokamínútu framlengingarinnar og sá til þess að Keflavík fékk tækifæri í vítaspyrnukeppninni.

Keflavík - Valur 3:3 (6:8)

Fyrstu mínúturnar einkenndust af mikilli baráttu beggja liða og Keflvíkingar sýndu strax að þeir væru sýnd veiði en ekki gefin.

Eftir um tíu mínútur fór Valur að taka stjórnina og sækja en vörn heimamanna var öguð og skipulögð og buðu gestunum upp á fá færi.

Það tók rúman hálftíma að fá fyrsta markið í leikinn en þá voru Valsarar farnir að sækja stíft að marki Keflavíkur. Gestirnir léku þá inn í teig Keflavíkur og eftir smá reitabolta uppskáru þeir mark (33').

Keflvíkingar hengdu þó ekkert haus og voru fljótir að svara fyrir sig. Ari Steinn Guðmundsson sendi háan bolta inn á teig Vals og eftir að hafa skoppa hitti Bjarni Mark Antonsson, varnarmaður Valsara, hreinlega ekki boltann og Ásgeir Páll Magnússon var fljótur að refsa fyrir með jöfnunarmarki (38').

Skot Einars Páls var ekki fast en alveg út við stöng og óverjandi fyrir Frederik Schram.

Í seinni hálfleik voru það heimamenn sem voru fyrri til að skora. Ari Steinn tók þá aukaspyrnu á vallarhelmingi Vals og sendi inn á teiginn, þar voru gestirnir í nauðvörn en boltinn hrökk út fyrir teiginn þar sem Dagur Ingi Valsson tók hann viðstöðulaust og hamraði í netið (57'). Frederik Schram, markvörður Vals, hreyfði sig ekki og gat bara horft á eftir boltanum í netið.

Valsarar stóðu eins og steinrunnir eftir þrumunegluna frá Degi Inga.
Hólmar Örn skellti sér á hestbak á Haraldi Frey þegar Keflavík tók forystuna.

Rúmum tíu mínútum síðar óðu Valsarar inn í teig, upp að endamörkum og sendu fastan bolta inn fyrir mark Keflavíkur þar sem Gunnlaugur Fannar Guðmundsson varð fyrir því óláni að fá boltann í sig og þaðan fór hann í netið (68').

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma en í framlengingunni voru gestirnir fyrri til en á 98. mínútu skoraði Jónatan Ingi Jónsson eftir góðan undirbúning fyrrum Keflvíkingsins Adams Ægis Pálssonar (98').

Keflvíkingar eru þekktir fyrir flest annað en uppgjöf og í seinni helming framlengingar gáfu þeir allt sem þeir áttu til að jafna – og yngsta leikmanninum tókst það. Gabríel Aron Sævarssyni var skipt inn á sjö mínútum fyrir leikslok og hann þakkaði traustið. Gabríel ætlaði að láta til sín taka, það sást á honum, og á lokamínútu leiksins var hann réttur maður á réttum stað þegar Gunnlaugur Fannar tók langt innkast sem vörn Vals kom frá, þó ekki lengra en til Kára Sigfússonar sem sendi háa sendingu aftur inn í teiginn. Þar stökk Dagur Ingi manna hæst og skallaði inn að marki, beint fyrir fæturna á Gabríel sem stýrði boltanum í markið (120').

Gabríel Aron var ógnandi þann stutta tíma sem hann var inn á.

Keflvíkingum gefið eitt tækifæri enn til að komast í undanúrslit bikarkeppninnar, bara vítaspyrnukeppnin eftir. Það gekk því miður ekki eftir, Keflavík misnotaði eina spyrnu en Valur enga. Engu að síður frábær sigur liðsheildarinnar hjá Keflavík í dag.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi ljósmyndir sem má sjá neðst á síðunni. Þá eru viðtöl við Hólmar Örn Rúnarsson, þjálfara Keflavíkur, og markaskorarann Gabríel Aron Magnússon.

Viðtal við Hólmar Örn, þjálfara Keflavíkur, eftir leik.


Rætt við markaskorarann Gabríel Aron Magnússon sem vissi að hann myndi setja mark sitt á leikinn

Keflavík - Valur (3:3 (6:8)) | Átta liða úrslit Mjólkurbikars karla 9. júní 2024