Langbest
Langbest

Íþróttir

Óvænt heimsókn stuðningsmanns knattspyrnuliðs Grindvíkinga
Miðvikudagur 8. mars 2023 kl. 10:20

Óvænt heimsókn stuðningsmanns knattspyrnuliðs Grindvíkinga

„Hann er búinn að gera dúndurhluti með Grindavíkurliðið,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG.

Knattspyrnuliði Grindavíkur bættist óvæntur liðsauki á dögunum í stuðningssveitina en James Hammonds frá South Shields sem er á norðaustuströnd Englands, nýtti tækifærið í heimsókn sinni til Íslands og kíkti í kaffi í Grindavík. Hvernig stendur á því að James gerðist stuðningsmaður UMFG, Jón Júlíus Karlsson sem er framkvæmdastjóri UMFG, hitti kappann. 

„James ákvað að nýta tækifærið þegar hann kom í frí til Íslands með konu sinni og dóttur og kíkja á aðstæður hjá liðinu sem hann hefur verið að stýra undanfarna mánuði - í Football manager [fyrir þá sem ekki vita, þá er Football manager tölvuleikur þar sem viðkomandi er framkvæmdastjóri/þjálfari knattspyrnuliðs]. Hann bað konuna sína um að velja lið af handahófi og Grindavík varð fyrir valinu. Hann er búinn að gera dúndurhluti með Grindavíkurliðið, er búinn að koma okkur í forkeppni Evrópudeildarinnar og nokkuð ljóst að ef liðið nær ekki markmiðum sínum í sumar munum við gjóa augunum að James,“ sagði Jón Júlíus sposkur.

Stjórnendafélag Suðurnesja
Stjórnendafélag Suðurnesja

James hafði sent skilaboð í gegnum Facebook-síðu UMFG degi áður en hann kom en var ekki búinn að fá svar þegar hann mætti og virti fyrir sér aðstæður á Grindavíkurvelli. Fljótlega kom Hadda Guðfinnsdóttir auga á James og spurði; „Are you the guy?“ [Ert þú maðurinn]. Hadda og James tóku tal saman, hún gaf honum barmmerki UMFG og kynnti svo fyrir Jóni Júlíusi. „Við ræddum komandi tímabil og væntanlega æfingaferð til Spánar. Hann sagðist stefna á að koma aftur í sumar og vildi sjá liðið spila alvöru leik, ég sagðist að sjálfsögðu bjóða honum á leikinn og leysti hann út með Grindavíkurtreyjunni, það gladdi hann mjög mikið,“ sagði Jón Júlíus að lokum.

James Hammonds og Jón Júlíus Karlsson