Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

Njarðvíkingar fóru með öll stigin úr Vogum
Það var hart barist á Vogaídýfuvellinum. Hér má sjá Marc McAusland á fjórum fótum eftir samstuð við Þróttara. Kenneth Hogg er til vinstri en hann skoraði tvö mörk Njarðvíkinga. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 10:42

Njarðvíkingar fóru með öll stigin úr Vogum

Njarðvíkingar lögðu granna sína í Þrótti Vogum í spennandi leik á Vogaídýfuvellinum í gær. Lokatölur urðu 2:3 fyrir gestina úr Njarðvík sem eru eftir sigurinn í 3.-4. Sæti 2. Deildar en Þróttarar eru í 5. Sæti. Bæði liðin eiga góða möguleika á að komast upp í Lengjudeildina.

Njarðvíkingar byrjuðu betur en Þróttarar unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið, rétt fyrir leikhlé og var þar Júlíus Óli Stefánsson að verki (44’). Staðan 1:0 í hálfleik fyrir Þrótti.

Njarðvíkingar gáfust ekki upp og mættu ákveðnir til seinni hálfleiks. Á 64. mínútu jafnaði markahrókurinn Kenneth Hogg leikinn með skoti úr teignum. Fimm mínútum síðar brutu Þróttarar á Hogg og Njarðvíkingar fengu dæmt víti sem fyrirliðinn Marc McAusland skoraði úr af öryggi (69’) og Njarðvík komið með forystuna.

Nýr leikmaður Þróttar, Hubert Rafal Kotus, komst á blað í sínum fyrsta leik á 74. mínútu og því var staðan 2:2 í hörkuskemmtilegum leik en Kenneth Hogg var ekki hættur. Ivan Prskalo stal boltanum af Þrótturum á 78. mínútu og gaf góða stungusendingu inn á Hogg sem lætur ekki svoleiðis færi fara forgörðum. 3:2 fyrir Njarðvík og þótt Þróttarar reyndu sem þeir gátu náðu þeir ekki að jafna leikinn. Mikilvægur sigur í höfn hjá Njarðvík og þeir færast því upp fyrir Þrótt í fjórða sætið.

Reynismenn töpuðu illa heima

Eftir að hafa sigrað Einherja 9:2 í síðustu umferð steinlá topplið Reynis á heimavelli sínum fyrir Elliða sem var í næstneðsta sæti deildarinnar, lokatölur 1:4 fyrir Elliða. Leikurinn, sem fór fram á þriðjudag, var í 15. umferð 3. deildarinnar og úrslit hans gætu þýtt að Reynir missi efsta sætið til KV sem leikur á miðvikudag.

Júlíus Óli Stefánsson skoraði fyrsta mark leiksins í Vogum og heimamenn leiddu 1:0 í hálfleik en það dugði ekki til sigurs.

Þróttur-UMFN 2. deild 2020