Krónan
Krónan

Íþróttir

Njarðvík vann kveðjuleikinn í Ljónagryfjunni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 1. október 2024 kl. 20:48

Njarðvík vann kveðjuleikinn í Ljónagryfjunni

Bónusdeild kvenna hófst í kvöld með Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Grindavíkur og ef eitthvað er að marka þá sem hafa með skipulagsvald á nýju íþróttahúsi Njarðvíkinga að gera, var þetta kveðjuleikur grænna í hinni frægu Ljónagryfju.

Eftir að Njarðvíkingar voru búnar að vera mun betri aðilinn fram í miðjan þriðja leikhluta með fullskipað lið á móti Kanalausum og Ísabellu-lausum Grindvíkingum, sýndu gular klærnar og buðu upp á hörku lokaleikhluta. Lokatölur 60-54 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 33-22 fyrir Njarðvík

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Grindavík byrjaði leikinn betur en um leið og Brittany Jenkins, Kani Njarðvíkinga, fann fjöl sína þá var nánast bara eitt lið á vellinum og grænu ljónynjurnar leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 33-22.

Ræða Þorleifs þjálfara Grindavíkur og aðstoðarmanns hans, Nökkva Más Jónssonar, skilaði greinilega sínu og Grindavík minnkaði forskotið hægt og örugglega og með þristi í fyrsta skoti lokafjórðungsins fór munurinn niður í sex stig og einfaldlega hörku leikur í gangi! Minnstur fór munurinn í 1 stig en Njarðvíkurstúlkur, dyggilega studdar af vel mættri Ljónagryfju, voru betri á lokasprettinum og unnu öruggan sigur í lokin, 60-54.

Brittany var nánast óstöðvandi hjá grænum eftir að hún hristi af sér slyðruorðið, hún klikkaði á fyrstu skotunum sínum en síðan héldu henni engin bönd. Hún endaði með 31 stig, tók 12 fráköst og fiskaðir heilar 9 villur. Aðrir leikmenn Njarðvíkur sem spiluðu voru tiltölulega jafnir.

Hjá Grindavík bar mest á fyrirliðanum, Huldu Björk Ólafsdóttur, Ragnheiði Björk Einarsdóttur, Katarzyna Anna Trzeciak og hinni dönsku Sofie Tryggedsson.

Gular þurfa samt ekki að örvænta, það er á flestra vitorði hversu mikilvægur hlekkur í kvennaliði, Kaninn er og ekki nóg með að það vantaði Alex Morris, heldur er hin stóra og stæðilega Ísabella Ósk Sigurðardóttir sem einmitt lék með Njarðvík í fyrra, að jafna sig á ökklameiðslum en gert ráð fyrir að hún verði tilbúin í þarnæsta leik.

Viðtöl má sjá í spilurunum hér að neðan og myndasafn Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, er neðst á síðunni.

Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur: Hulda, varafyrirliði Njarðvíkur: Þorleifur, þjálfari Grindavíkur: Hulda Björk, fyrirliði Grindavíkur:

Njarðvík - Grindavík (60:54) | Bónusdeild kvenna 1. október 2024