Njarðvík tryggði sér oddaleik!
Icemar-höll Njarðvíkinga var þétt setin í kvöld en þá mættu Njarðvíkurkonur Haukum í fjórða leik liðanna í lokaúrslitum Bónusdeildar kvenna. Haukar unnu fyrstu tvo leikina en Njarðvík kom til baka og knúðu fram fjórða leikinn. Njarðvík leiddi nánast allan tímann, með einu stigi í hálfleik, 42-41 en upp úr miðjum þriðja leikhluta skyldu leiðir og öruggur Njarðvíkursigur staðreynd, 94-78.
Brittany Dinkins var sjóðandi heit til að byrja með og var komin með 14 stig af 21 Njarðvíkinga, hún var m.a. búin að hitta úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum. Njarðvík komst mest í níu stiga forskot, 23-14 en Haukar áttu góðan lokasprett og staðan að loknum fyrsta fjórðungi, 25-20.
Aftur náði Njarðvík níu stiga forystu í upphafi annars leikhluta en Haukakonur komu til baka og þegar munurinn minnkaði í þrjú stig, 35-32, tók Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur leikhlé. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var nokkuð jafnt á með liðunum og staðan í hálfleik, 42-41.
Sami barningur var í byrjun seinni hálfleiks, Njarðvík alltaf aðeins á undan. Lára Ösp Ásgeirsdóttir átti síðan frábæra innkomu og setti þrjá þrista og Njarðvík náði yfirhöndinni og leiddi að loknum þremur leikhlutum, 69-59.
Lára hélt áfram þar sem frá var horfið og setti sinn fjórða þrist og Njarðvík með öll völd yfir leiknum, staðan orðin 74-60. Vörn Njarðvíkinga var mjög sterk á þessum kafla og Haukar áttu í mesta basli með að sjá körfuna. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum, var staðan 15-3 og í heildina þá 86-62 og ljóst að þessi leikur væri búinn. Lokatölur 94-78 og oddaleikur framundan í Ólafssal í Hafnarfirði á þriðjudagskvöld!
Útlendingar Njarðvíkur skiluðu allar sínu og vel það í kvöld en vert er að geta Láru Aspar Ásgeirsdóttur, hún kveikti heldur betur upp í sínum liðsfélögum með nokkrum þristum í þriðja leikhluta, sú glóð lifði það sem eftir lifði leiks og frábær sigur Njarðvíkinga staðreynd.
