Langur laugardagur framundan hjá Keflvíkingum
Það verður heldur betur nóg að gera næstkomandi laugardag í íþróttalífi Keflvíkinga. Bæði verða úrslitaleikir í knattspyrnu og körfuknattleik þennan dag svo það verður mikið annríki hjá stuðningsmönnum Keflavíkur – Sönnum Keflvíkingum.
Dagskráin hefst fyrir klukkan 14:00 (ath. breyttur tími) á Laugardalsvelli þar sem Keflavík og Afturelding mætast í úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu á næsta ári.
Að loknum úrslitaleiknum í knattspyrnu hefst körfuknattleiksveisla í Blue-höllinni þar sem Keflavík og Þór Akureyri mætast Meistarakeppni kvenna og hefst sá leikur klukkan 16:30.
Þegar búið er að útkljá hver er meistari meistaranna hjá konunum tekur við Meistarakeppni karla þar sem Keflavík og Valur eigast við, klukkan 19:15.
Víkurfréttir munu auðvitað taka þátt í gleðinni og flytja fréttir á vf.is af öllum þessum viðburðum jafnóðum og þeir gerast.