RNB 17 júní
RNB 17 júní

Íþróttir

Keflvíkingar lögðu Íslandsmeistarana
Aerial Chavarin skoraði tvö mörk gegn Íslandsmeisturunum í sigrinum í dag. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 5. júní 2021 kl. 16:25

Keflvíkingar lögðu Íslandsmeistarana

Blikar réðu ekkert við Aerial

Keflvíkingar unnu fyrsta leik sinn í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu þegar liðið gerði góða ferð í Kópavog í dag og lék gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Aerial Chavarin kom Keflavík yfir á 8. mínútu með mögnuðu marki þar sem hún fékk boltann úti hægra megin og lék listilega fram hjá varnarmönnum Breiðabliks áður en hún skoraði örugglega í markið. Aðeins mínútu síðar jöfnuðu Blikar með neglu utan teigs sem Tiffany Sornpao átti engan möguleika á að verja. Staðan orðin 1:1.

Keflvíkingar héldu áfram að vera ákveðnar í sókninni og þær náðu að skapa oft usla í vörn Blika. Á 25. mínútu skoruðu Keflvíkingar aftur, þar var að verki Ísabel Jasmín Almarsdóttir sem var fyrst til að hirða upp frákastið eftir að skot Keflvíkinga hrökk af varnarmanni og Ísabel kláraði færið vel. Keflavík komið aftur yfir og leiddi í hálfleik, 1:2.

Keflavík var mikið grimmari í fyrri hálfleik og þær héldu áfram að berjast í seinni hálfleik. Blikar náðu ekki að skapa sér nein afgerandi færi en maður leiksins var án efa Aerial Chavarin sem Blikar réðu ekkert við í dag. Aerial fullkomnaði leik sinn þegar hún skoraði annað mark sitt og þriðja mark Keflavíkur á 72. mínútu. Markið kom eftir gott skot Anítu Lindar Daníelsdóttur sem markvörður Blika náði ekki að halda, Aerial fylgdi vel á eftir og setti boltann í netið.

Þar við sat og Keflavík landaði sínum fyrsta sigri í Íslandsmótinu í ár, 1:3 gegn Íslandsmeisturum Breiðablik og með sigrinum er Keflavík komið í sjötta sæti deildarinnar en Keflavík og Breiðablik hafa leikið einum leik fleiri en önnur lið í deildinni (Tindastóll og Fylkir hafa leikið tveimur færri).