Lyfta.is
Lyfta.is

Íþróttir

Keflvíkingar á leið á EM í hópfimleikum
Heiðar og Leonard. Mynd: Linda Hlín Heiðarsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 28. júlí 2022 kl. 14:12

Keflvíkingar á leið á EM í hópfimleikum

Yfirþjálfarar landsliða og landsliðsþjálfarar í hópfimleikum völdu á dögunum landslið fyrir Evrópumótið í hópfimleikum 2022. Keflvíkingarnir Heiðar Geir Hallson og Leonard Ben Evertsson munu keppa með landsliði drengja í unglingaflokki á mótinu. 

Heiðar og Leonard höfðu báðir æft áhaldafimleika lengi vel og í byrjun árs urðu breytingar innan fimleikadeildar Keflavíkur sem urðu til þess að Erika, yfirþjálfari hópfimleika hjá Keflavík, hvatti þá til að geyma ólarnar og prófa hópfimleika. Nú hálfu ári seinna, eru þeir báðir á leiðinni á Evrópumót. Einnig er skemmtilegt frá því að segja stelpurnar í liði Keflavíkur lögðu sig mikið fram til að aðstoða þá Heiðar og Leonard og fengu þeir auka danskennslu hjá stelpunum til að undirbúa sig fyrir mót því dansinn var alveg nýr fyrir þeim.

Hluti af liði Keflavíkur í 1. flokki blandaðra liða

Evrópumótið fer fram í Lúxemborg dagana 14. - 17. september 2022. Ísland sendir á mótið kvenna og karlalið í fullorðinsflokki og þrjú lið í unglingaflokki, stúlkna-, drengja- og blandað lið unglinga.

Þann 27. ágúst verður opið æfingamót landsliðanna haldið í Stjörnunni og allir eru velkomnir að mæta og sýna liðunum stuðning á lokametrunum fyrir Evrópumótið. 

Víkurfréttir óska Heiðari og Leonardi góðs gengis í þessu stóra verkefni.