Optical studio
Optical studio

Íþróttir

Keflavík lék sér að Leikni
Adam Ægir Pálsson var einn af mörgum sem áttu góðan leik í gær og skoraði tvö mörk. Mynd úr safni VF
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 23. október 2022 kl. 09:40

Keflavík lék sér að Leikni

Keflavík sendi Leiknismenn niður um deild þegar liðin mættust í næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í gær. Eftir ríflega hálftíma leik kom fyrsta markið og þá brustu allar varnir Leiknismanna. Að lokum vann Keflavík sex marka sigur, 7:1, og Leiknir er fallið í 1. deild. 

Leiknir - Keflavík 1:7

Keflvíkingar sköpuðu sér hvert dauðafærið af öðru en fyrsta markið leit ekki dagsins ljós fyrr en á 34. mínútu þegar Adam Ægir Pálsson lagði boltann fyir Joey Gibbs sem smellhitti hann utan teigs og setti í markvinkilinn. Adam Ægir var sjálfur á ferðinni tveimur mínútum síðar (36') þegar Rúnar Þór Sigurgeirsson sendi góðan bolta á hann inni í teignum og Adam hafði nægan tíma til að klára.

Gibbs endurgalt Adam stoðsendinguna í fyrsta markinu skömmu síðar og Adam Ægir skoraði annað mark sitt og þriðja mark Keflavíkur í fyrri hálfleik (41').

Optical studio
Optical studio

Snemma í seinni hálfleik minnkaði Leiknir muninn (53') og skömmu síðar fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað þegar Frans Elvarsson braut harkalega á Leiknismanni. Frans var þegar á gulu spjaldi en hann slapp með skrekkinn og fannst mörgum að hann hefði átt að fá sitt annað gula spjald. Það gerðist hins vegar ekki og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga, gerði breytingu á liðinu og skipti Frans út af fyrir Dag Inga Valsson.

Á 71. mínútu skoruðu Keflvíkingar fjórða mark sitt þegar Rúnar Þór sendi frábæran bolta fyrir mark Leiknis, þar sem Kian Williams lúrði á fjær og setti boltann í netið. Þarna var fullljóst að Leiknismenn væru búnir að vera, fallnir, og þeir lögðu árar í bát.

Sindri Snær Magnússon skoraði fimmta markið með góðri afgreiðslu úr teignum eftir sendingu frá nafna sínum, Sindra Þór Guðmundssynin (77').

Dagur Ingi Valsson setti svo tvö í lokin (83' og 84') og úrslitin ráðin.

Keflavík er efst í neðri hluta Bestu deildarinnar þegar ein umferð er eftir með 34 stig. Fram er með 28 stig en Fram leikur við FH í dag í lokaleik umferðarinnar. Keflavík tekur svo á móti Fram í lokaumferðinni.