Íþróttir

Keflavík í úrslit í VÍS bikar kvenna eftir sigur gegn Njarðvík
Daniella Wallen átti góðan leik eins og venjulega fyrir Keflavík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 18:38

Keflavík í úrslit í VÍS bikar kvenna eftir sigur gegn Njarðvík

Keflavík vann öruggan sigur á liði Njarðvíkur í fyrri undanúrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni í dag, lokatölur 86-72 eftir að 16 stigum hafði munað í hálfleik, 51-36. Það var flottur liðsbragur á liði Keflvíkinga, enginn leikmaður fór yfir 20 stig á meðan Selena Lott skoraði 29 stig hjá Njarðvík og næsti leikmaður var með 10 stig.

Keflavíkurkonur byrjuðu leikinn betur og eftir rúmar sex mínútur tók Rúnar Ingi, þjálfari Njarðvíkur leikhlé eftir þrist frá Birnu Benónýsdóttur og staðan orðin 14-8 fyrir Keflavík. Njarðvík var í mestu vandræðum með að komast í gegnum vörn Keflavíkur en Ísabella Ósk Sigurðardóttir náði loksins að brjóta ísinn og fjögur stig fylgdu í kjölfarið, staðan orðin 18-14 og hörkuleikur í gangi. Fyrirliði Keflavíkur, Anna Ingunn Svansdóttir átti hins vegar lokasprettinn í fyrsta fjórðungi, setti tvo glæsilega þrista og kom muninum þar með upp í 10 stig, 24-14.

Njarðvík byrjaði annan leikhluta af krafti en Birna Ben slökkti í þeirri byrjun með tveimur flottum þristum og Keflavík var komið með 16 stiga forskot, 36-20 en Selena Lott svaraði með þristi hinum megin og hélt Njarðvík inni í umræðunni. Þær náðu svo að koma muninum niður í átta stig en Keflavík átti endasprettinn og leiddi að loknum fyrri hálfleik, 51-36.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Birna Benónýsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir voru komnar með 11 stig og Daniella Wallen 10 fyrir Keflavík. Hjá Njarðvík var það nánast bara hin bandaríska Selena Lott sem lagði til í stigaskoruninni, var komin með 19 stig, sú næsta með 5 stig.

Njarðvíkingar komu geysisterkar til leiks í seinni hálfleik og opnuðu hann með tveimur þristum. Það var allt annað að sjá vörnina, þær fóru að stela boltum og eftir einn slíkan tapaðan bolta og Jana Fals náði frákasti og skoraði eftir að Selena klikkaði, var Sverri Þór nóg boðið og tók leikhlé. Það virtist ekki ætla skila neinu, Jana bætti við þristi og minnkaði muninn í sex stig og Keflavík var í mestu vandræðum með að finna körfuna en loksins rauf Daniella Wallen körfuþurrðina, skoraði og fékk víti að auki sem hún nýtti. Við þetta komst Keflavík aftur í gang og áður en nokkur gat blikkað auga, var murinn kominn upp í 17 stig að nýju eftir tvo flotta þrista frá Önnu Ingunni og Elisu Pinzan sem bætti svo tveimur stigum, staðan 66-47 og ein og hálf mínúta eftir af þriðja leikhluta. Liðin héldust þannig hönd í hönd út fjórðunginn og staðan fyrir lokabardagann 71-52 fyrir Keflavík.

Það var ljóst að Njarðvík þyrfti að byrja fjórða leikhlutann af krafti ef þær ætluðu sér að eygja möguleika á sigri en eftir tæpar fimm mínútur var munurinn sá sami, 80-61 og ljóst að þær grænklæddu þyrftu hálfgert kraftaverk til að ná sigri. Það lét ekki sjá sig og Keflavíkurkonur sigldu öruggum sigri og fóru brosandi heim, lokatölur 86-72.

Það var kannski helst liðsheildin sem skóp sigur Keflvíkinga, enginn leikmaður fór yfir 20 stig, Daniella Wallen og Birna Benónýsdóttir með 17 stig og Sara Rún Hinriksdóttir og Elisa Pinzan voru með 14 stig. Fyrirliðinn Anna Ingunn Svansdóttir var með 9 stig.

Hjá Njarðvík var Selena Lott lang best, skilaði 29 stigum og 11 fráköstum. Jana Falsdóttir sú eina fyrir utan Lott sem náði tveggja stafa stigaskori, slétt 10 stig en Ísabella Ósk Sigurðardóttir var með 9 stig og 6 fráköst.

Keflavík því komið í bikarúrslit og í kvöld kemur í ljóst hvort þær mæti öðrum nágrönnum, úr Grindavík, eða Þór frá Akureyri.