Flugger
Flugger

Íþróttir

Hagstæð úrslit og deildarmeistaratitlar Suðurnesjaliða
Keflvíkingar fögnuðu vel að leikslokum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 16. september 2023 kl. 19:06

Hagstæð úrslit og deildarmeistaratitlar Suðurnesjaliða

Keflvíkingar unnu mikilvægan sigur í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag og héldu sæti sínu í deild þeirra bestu. Njarðvík tapaði í Lengjudeild karla en bjargaði sér frá falli með minnsta mun. Deildarmeistarabikarar fóru á loft á tveimur stöðum á Suðurnesjum en Reynismenn fengu afhentan bikar deildarmeistara 3. deildar og RB vann Kríu í úrslitaleik 5. deildar.

Keflavík - Selfoss 1:0

Keflavík stjórnaði leiknum frá fyrstu mínútu en það var ekki fyrr en á þeirri 28. að vörn Selfyssinga var brotin á bak aftur. Eftir hornspyrnu og smá darraðadans fyrir framan mark Selfoss barst boltinn út til Anitu Lindar Daníelsdóttur sem hamraði hann í fjærhornið, óverjandi fyrir markvörð Selfoss og Keflavík komið í forystu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Anita Lind hamrar boltann í netið.

Þrátt fyrir óteljandi færi náðu Keflvíkingar ekki að skora fleiri mörk en það kom ekki að sök því Selfoss var aldrei nálægt því að ógna sigrinum, áttu aðeins eitt markskot og það fór framhjá markinu.

Með sigrinum er því ljóst að Keflavík leikur áfram í deild þeirra bestu að ári en ÍBV og Selfoss  falla í Lengjudeildina.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók myndir og viðtal við markaskorara og fyrirliða Keflavíkur eftir leik. Myndasafn og viðtal eru neðst á síðunni.


Njarðvík einu marki frá falli

Njarðvíkingar töpuðu 4:0 á útivelli fyrir Fjölni í síðustu umferð Lengjudeildar karla en þeir halda sæti sínu í deildinni á kostnað Selfoss sem tapaði 2:1 fyrir Vestra og munaði aðeins einu marki á markahlutfalli liðanna. Njarðvík lýkur því leik í tíunda sæti.

Grindavík tapaði fyrir 3:0 Þór á Akureyri en Grindvíkingar voru búnir að tryggja sig frá falli og enda í sjötta sæti deildarinnar. 


Þróttur fer ekki upp

Þróttur endaði í fjórða sæti 2. deildar karla eftir 4:2 sigur á KFG á útivelli í dag.

Mörk Þróttar skoruðu þeir Haukur Leifur Eiríksson (5'), Jóhann Þór Arnarsson (32', víti) og Adam Árni Róbertsson (72' og 90'+2).


Reynismenn hampa bikarnum. VF/Hilmar Bragi

Reynir deildarmeistari

Reynismenn töpuðu 3:2 fyrir Árbæ í 3. deild karla en þeir voru búnir að tryggja sér deildarmestaratitilinn fyrir lokaumferðina.

Mörk Reynis skoruðu Vladyslav Kudryavtsev (30') og Kristófer Páll Viðarsson (85', víti) en Kristófer varð annar markahæsti leikmaður deildarinnar.

Myndasafn Hilmars Braga Bárðarsonar, ljósmyndara Víkurfrétta, er að finna neðst á síðunni.

Víðismenn kláruðu deildina með 3:0 sigri á KFS og enda í fjórða sæti.

Mörk Víðis komu öll í seinni hálfleik en þau skoruðu Paolo Gratton (50'), Helgi Þór Jónsson (57') og Atli Freyr Ottesen Pálsson (79').


RB vann úrslitaleik 5. deildar

RB lék til úrslita gegn Kríu um deildarmeistatitil 5. deildar í dag. RB-ingar komust yfir strax á fyrstu mínútu með marki Maoudo Diallo Ba en skömmu fyrir leikslok jafnaði Kría (82').

Alexis Alexandrenne skoraði svo sigurmark RB fimm mínútum síðar (87') og tryggði þeim titilinn.

Keflavík - Selfoss (1:0) | Besta deild kvenna 16. september 2023

Reynir deildarmeistari 2023