Íþróttir

Gott jafntefli hjá Þrótturum
Viktor Smári Segatta skoraði mark Þróttar gegn Kórdrengjum, hér er hann við það að koma sér í færi gegn Kára í annari umferð. Ljósmynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 28. júlí 2020 kl. 21:12

Gott jafntefli hjá Þrótturum

Þróttur Vogum sótti Kórdrengi, topplið 2. deildar karla, heim í gær. Fyrir áttundu umferð voru Þróttarar í sjötta sæti en Kórdrengir sátu í efsta sætinu.

Hiti í leikmönnum

Það voru Kórdrengir sem byrjuðu leikinn af krafti og sköpuðu sér hættuleg færi snemma í leiknum. Kórdrengir vildu fá dæmt víti eftir um 25 mínútna leik en fengu ekki. Eitthvað virðist það hafa hlaupið í skapið á þeim og í kjölfarið fengu tveir leikmenn þeirra gul spjöld eftir harkalegar tæklingar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar Orri Einarsson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur, braut illa á leikmanni Þróttar á 41. mínútu upp við varamannabekk Þróttar og var stálheppinn að uppskera aðeins gult spjald fyrir brotið. Liðsstjóri Þróttar var alls ekki sáttur við niðurstöðuna og fékk að líta rautt í kjölfarið.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik þó bæði lið hafi fengið færi til þess og staðan því markalaus þegar gengið var til búningsklefa.

Þróttur kemst yfir

Ekki var langt liðið á seinni hálfleik þegar Kórdrengir töpuðu boltanum klaufalega, Þróttarar nýttu sér mistökin og þökkuðu fyrir sig með marki, þar var að verki Viktor Smári Segatta (53').

Kórdrengir gáfust ekki upp og sköpuðu sér færi en inn vildi boltinn ekki, ekki fyrr en á 73. mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu upp við endamörk Þróttara. Aukaspyrnan kom inn í teiginn það sem leikmaður Kórdrengja náði að skalla í mark Þróttar og jafna leikinn. Staðan orðin 1:1 og stundarfjórðungur eftir.

Liðin skiptust á að skapa sér dauðafæri það sem eftir lifði af þessum fjöruga leik og eiginlega ótrúlegt að fleiri mörk skuli ekki hafa verið skoruð en jafntefli niðurstaðan.