HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Íþróttir

Fljúgandi byrjun Keflvíkinga
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 19. júní 2020 kl. 23:47

Fljúgandi byrjun Keflvíkinga

Íslandsmótið í knattspyrnu er hafið

Það voru frábærar aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Nettóvellinum í kvöld þegar Keflavík tók á móti Aftureldingu í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar. Keflvíkingar mættu fullir sjálfstraust eftir stórsigur í Mjólkurbikarnum og tóku forystu á 17. mínútu með marki Nacho Heras. Þá kom að Adam Árna Róbertssyni sem skoraði á 23. mínútu og Sindri Þór Guðmundsson bætti um betur á þeirri 38., Keflavík leiddi 3:0 í hálfleik.

Joey Gibbs bætti enn einu marki strax í upphafi síðari hálfleiks og nokkuð ljóst að hér stefndi í stórsigur. Afturelding náði að klóra í bakkann með marki á 65. mínútu en Helgi Þór Jónsson svaraði með marki á 72. mínútu. Lokatölur 5:1 sigur Keflvíkinga.

Public deli
Public deli

Það er óhætt að segja að Keflvíkingar hafa farið vel af stað í deild og bikar, þeir hafa skorað tíu mörk í síðustu tveimur leikjum, fimm í sigurleik gegn Birninum í Mjólkurbikarnum og fimm í kvöld. Það er ljóst að þeir ætla sér stóra hluti í sumar.

Fýluferð hjá Grindvíkingum

Fyrsti leikur Grindvíkinga í Lengjudeildinni fór fram á Akureyri þegar liðið sótt Þór heim. Þórsarar skoruðu strax á 7. mínútu en Aron Jóhannsson jafnaði leikinn fyrir Grindavík á 13. mínútu. Það sem eftir lifði leiks má segja að fátt markvert hafi gerst og var mikil þreyta farin að gera vart við sig hjá báðum liðum. Það leit út fyrir jafnteflisleik allt fram á síðustu mínútu þegar Alvaro Monteja náði að skora sigurmark fyrir Þór (89').

Eftir stórtap í bikarnum um síðustu helgi hefur kannski vantað eitthvað upp á sjálfstraustið hjá Grindvíkingum en þeir eigi mikla vinnu fyrir höndum ætli þeir sér upp um deild.

Markaregn á KR-vellinum

Það var mikill markaleikur á KR-vellinum þegar Reynir sótti KV heim. Alls voru sjö mörk skoruð í leiknum og skiptust liðin á að taka forystu. KV komst yfir á 25. mínútu en skömmu áður en blásið var til leikhlés jafnaði Magnús Magnússon og staðan 1:1 í hálfleik.

Strax í upphafi síðari hálfleiks fengu Reynismenn vítaspyrnu sem Barros skoraði úr og kom þeim yfir. Gauti Þorvarðarson, leikmaður KV, skoraði í tvígang (69' og 80') en Barros jafnaði leikinn með sínu öðru marki á 88. mínútu. Á þriðju mínútu uppbótartíma innsiglaði Hörður Sveinsson svo sigurinnn, 4:3 fyrir Reyni og þeir komnir með þrjú stig.

Keflavík 5 - Afturelding 1 // Lengjudeildin 19. júní 2020