Íþróttir

Búinn að eiga frábært tímabil eftir að hafa misst áhugann og hætt í fótbolta í tvö ár
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 17. ágúst 2025 kl. 06:10

Búinn að eiga frábært tímabil eftir að hafa misst áhugann og hætt í fótbolta í tvö ár

Svavar Örn Þórðarson byrjaði í markinu en breytti um stöðu þegar hann fór í Njarðvík

„Ég var um tíu ára gamall þegar ég flutti í Reykjanesbæ og þar sem vinur minn var að æfa með Njarðvík, var val mitt nokkuð einfalt og hér hef ég alltaf spilað,“ segir Njarðvíkingurinn Svavar Örn Þórðarson. Svavar ólst upp í Reykjavík en fjölskyldan flutti í Reykjanesbæ þegar hann var u.þ.b. tíu ára gamall. Hann byrjaði að æfa fótbolta með Njarðvík og fór upp í gegnum alla yngri flokkana með félaginu. Áhugi hans á fótbolta datt upp fyrir um það leyti sem ganga átti upp í meistaraflokk og hann sagði skilið við takkaskóna um tíma en hungrið kom upp í honum aftur fyrir síðasta tímabil og hann hefur ekki litið til baka síðan þá. Hann hefur byrjað flesti leiki í sumar, spilar stöðu hægri bakvarðar og vill sjá hversu langt hann getur náð í þessari vinsælustu íþrótt Íslendinga.

„Ég hef lengstan hluta ævi minnar búið í Reykjanesbæ og hef nánast bara æft og keppt með Njarðvík. Fyrstu árin bjó ég í Árbænum og Norðlingaholti og byrjaði að æfa með Fylki. Ég byrjaði í marki en skipti um stöðu þegar ég flutti suður, byrjaði að æfa með Keflavík en besti vinur minn, Pálmi Rafn Arinbjörnsson sem er markmaður Víkings í dag, er gallharður Njarðvíkingur og ég elti hann á æfingar með Njarðvík. Ég æfði upp alla yngri flokkana en um það leyti sem 2. flokks tímabilinu var að ljúka missti ég áhugann og hætti að æfa, ég mætti í leiki þegar vantaði leikmenn en æfði annars ekkert. Svo allt í einu kviknaði áhuginn fyrir síðasta tímabil, ég hafði samband við Gunnar Heiðar, þjálfara meistaraflokks og athugaði hvort ég mætti æfa og það var sjálfsagt mál. Ég kom ekki mikið við sögu á síðasta tímabili, var mest á bekknum en fékk sénsinn í lok tímabils og nýtti þann meðbyr í vetur og átti mjög gott undirbúningstímabil. Ég hef byrjað alla leiki en var í banni í þarsíðasta leik og var á bekknum í síðasta leik. Það er mikil samkeppni um stöður í liðinu sem er auðvitað mjög jákvætt fyrir liðið, ég þarf því einfaldlega að vinna mér sæti í liðinu aftur og mun leggja mig allan fram til þess.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Markmiðið var að gera betur

Markmið Njarðvíkinga fyrir þetta tímabil var að gera betur en á síðasta tímabili og ljóst var að ef það markmið myndi nást, myndi liðið eiga möguleika á að leika á meðal þeirra bestu, liðið var hársbreidd frá því að komast í umspil liða tvö til fimm um eitt laust sæti. Njarðvíkingar hafa verið á eða við toppinn í allt sumar og komu sér á toppinn í síðustu umferð með sigri gegn Selfossi en á sama tíma gerði toppliðið ÍR, jafntefli. Markmiðið er einfalt úr því sem komið er.

Spila á meðal þeirra bestu

„Það væri galið af okkar hálfu að ætla okkur ekki að vinna deildina fyrst við erum á toppnum og sex umferðir eftir. Það hefur gengið mjög vel hjá okkur, við erum taplausir en á móti hafa jafnteflin verið of mörg. Þjálfarateymið er frábært og ég viðurkenni fúslega að ég heyrði orðróminn í sumar þegar Skagamenn létu þjálfara sinn fara og Gunnar Heiðar var orðaður við stöðuna. Ég var samt viss um að hann myndi ekki yfirgefa okkur á þeim tímapunkti, hann er frábær þjálfari og hefur aukið trú okkar á eigin getu mjög mikið, andlegi þátturinn er mjög mikilvægur í þessu. Þótt við séum á toppnum þá er mótið langt í frá búið, allir leikir eru erfiðir og okkar næsti leikur í kvöld (miðvikudag) á móti Fjölni á útivelli verður án efa mjög erfiður, Fjölnismenn eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni og það eru oft erfiðustu leikirnir. Augnabliks einbeitingarleysi af okkar hálfu og leikurinn er farinn, þess vegna verðum við að vera með fullan fókus á það sem eftir lifir sumarsins, ef við náum því hef ég fulla trú á að við klárum þessa deild.

Það yrði draumur að spila með Njarðvík í deild hinna bestu en hversu langt ég stefni verður bara að koma í ljós. Áhuginn fyrir fótbolta er kominn aftur og eina markmiðið í dag er að hámarka mína getu, hvort það leiði til að ég spili með Njarðvík í Bestu deildinni, að íslenskt lið sækist eftir starfskröftum mínum eða erlent lið sýni mér áhuga, kemur bara í ljós. Ég stjórna því ekki, það eina sem ég get stjórnað er að reyna standa mig eins vel og ég get og hámarka mína hæfileika,“ sagði þessi efnilegi Njarðvíkingur að lokum.