Íþróttir

Áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum utandyra
Alger grímuskylda verður meðal áhorfenda. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 5. október 2020 kl. 11:13

Áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum utandyra

Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingar á þeim takmörkunum sem upphaflega voru gefnar út. Breytingarnar snúa að áhorfendum á iþróttaviðburðum sem fara fram utandyra.

Upphaflega kom fram að áhorfendur yrðu ekki leyfðir á öllum íþróttaviðburðum en með breytingunum eru þeir leyfðir á kappleikjum sem fara fram utandyra.

Í minnisblaði Heilbrigðisráðuneytis segir: „Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á morgun fara fram tveir knattspyrnuleikir á Suðurnesjum; Víðir tekur á móti Kára í 2. deild karla, þetta er leikur sem hafði verið frestað, og Grindavík tekur á móti Fram í 2. deild kvenna. Báðir leikir hefjast klukkan 15:30.

Víkurfréttir leituðu til Einars Karls Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra knattspyrnufélagsins Víðis, og inntu hann eftir því hvernig sóttvörnum yrði háttað á leik Víðis og Kára. 

Einar sagði að áhorfendur verði leyfðir, einstaklingar og fjölskyldur passa upp á eins metra bil eða tveggja sæta á milli í stúkunni (starfsmaður stýrir því). Grímuskylda er á leiknum og mæta áhorfendur með sína grímu eða kaupa í miðasölu. Þeir sem eru ekki með grímu fá ekki aðgang. Aðeins verða leyfðir 100 manns á leikinn (börn fædd 2005 eða seinna eru ekki með í þeirri tölu).

Í samtali við Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóra Grindavíkur, sagði hann að verið væri að vinna í þessum málum en hann býst við að útfærslan hjá Grindvíkingum verði á svipuðum nótum og hjá Víðismönnum.