Fréttir

Víkurfréttir 39 ára!
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 14. ágúst 2019 kl. 00:03

Víkurfréttir 39 ára!

Víkurfréttir fagna 39 ára afmæli í dag, 14. ágúst 2019 en blaðið hefur komið út óslitið frá þeim degi árið 1980. Í dag starfrækja Víkurfréttir ehf. blaðið, vefinn vf.is og golfvefinn kylfingur.is auk þess að vera með öfluga sjónvarpsþáttagerð á vf.is og fyrir sjónvarpsstöðina Hringbraut.

En að upphafinu og efni á forsíðu fyrsta tölublaðs Víkurfrétta fyrir 39 árum. Nýr kaupfélagsstjóri, aldurslagasjóður, 550 manns misstu vinnuna og Svartbakurinn heimtar sitt voru meðal fyrirsagna á fyrstu forsíðu Víkurfrétta sem kom út 14. ágúst 1980. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrsti útgefendi blaðsins var Prentsmiðjan Grágás en einmitt á sömu forsíðu þessa fyrsta tölublaðs er sagt frá því að útgáfa Suðurnesjatíðinda, forvera Víkurfrétta, hafi legið niðri og ekki tekist að koma út blaði þrátt fyrir tilraunir. Það kom síðan á daginn að Víkurfréttir tóku við keflinu og eru líklega fyrsta fréttablaðið á Íslandi sem var dreift frítt en því var dreift í verslanir, stofnanir, bensínstöðvar og á fleiri stöðvar þar sem fólk gat gripið eintak með sér en þó fyrst um sinn eingöngu í Keflavík og Njarðvík.

Í ársbyrjun 1983 urðu tímamót í útgáfunni þegar nýir eigendur tóku við útgáfu blaðsins. Páll Ketilsson, núverandi eigandi VF og Emil Páll Jónsson keyptu blaðið af prentsmiðjunni Grágás og stofnuðu Víkurfréttir ehf. Fyrstu tvö, þrjú árin hafði blaðið komið út um það bil hálfsmánaðarlega og treysti á auglýsingasölu en Suðurnesjatíðindi höfðu verið sölu- og áskriftarblað. Páll og Emil breyttu útgáfutíðninni strax í vikulega útgáfu og dreifðu því áfram frítt á sama hátt en bættu strax öðrum byggðarlögum á Suðurnesjum við í hópinn. Varð þannig Suðurnesjablað, ekki bara fyrir Keflavík og Njarðvík.

Nokkru seinna var farið að dreifa blaðinu inn á heimili á Suðurnesjum eins og það er gert í dag. Árið 1986 var þó hugur í mönnum og þá var í nokkra mánuði blaðið gefið út tvisvar í viku. Árið 1993 fór Emil Páll út úr fyrirtækinu og Páll Ketilsson og fjölskylda eignaðist það og rekur fjölmiðilinn sem VF er orðið í dag, vikublað, vefirnir vf.is og kylfingur.is og Sjónvarp VF.