Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Við viljum halda starfseminni áfram hér í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 13. júlí 2022 kl. 09:10

Við viljum halda starfseminni áfram hér í Grindavík

– segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.

Eflaust brá mörgum Grindvíkingnum í brún þegar það spurðist út að Vísisfjölskyldan hafi skipt á hlutabréfum Vísis, á hlutabréfum í Síldarvinnslunni á Neskaupsstað. Margir horfðu eflaust á Verbúðina í vetur og þar sást hvernig byggð var skilin eftir í rústum eftir að sjávarútvegsfyrirtæki bæjarins var selt norður á Akureyri. Víkurfréttir settust niður með framkvæmdastjóra Vísis, Pétri Hafsteini Pálssyni, og eftir það spjall er deginum ljósara að Grindvíkingar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur.

Pétur: „Við höfum farið í tvær sameiningarpælingar sem gengu ekki upp en tími fjölskyldufyrirtækja er bara viss langur og við vorum komin á þann tímapunkt að þurfa huga að næstu skrefum. Þá eru ýmsar leiðir færar; skrá félagið á markað, sameinast, selja allan kvótann og eignir o.s.frv., en okkar stærsta mál var að tryggja að starfsemin myndi halda áfram hér í Grindavík. Við hefðum getað fengið miklu hærra kaupverð en eins og ég segi, okkur var mjög mikilvægt að halda starfseminni áfram hér í Grindavík.“

Svo kom óvænt tilboð

„Fyrir tveimur vikum barst okkur svo tilboð sem var þannig að við ákváðum að skoða það. Tilboðið var mjög sanngjarnt en það byggði á rekstrarvirði og þ.a.l. gátum við gert þá kröfu að starfsemin myndi ekki raskast í okkar heimabyggð. Þarna reynir auðvitað á trúverðugleika en við þekkjum vel til stjórnenda Síldarvinnslunnar og ríkir algert traust á milli aðila. Stjórnendur þess fyrirtækis hafa séð uppganginn í okkar landvinnslu en frystihúsið okkar er með því betra sem gerist hér á landi í þeim efnum, þeir sáu sér leik á borði og nálguðust okkur. Það eru ekki nema tvær vikur síðan þetta kom upp, sem sýnir kannski samstarfsviljann hjá báðum aðilum.“

Public deli
Public deli

Eflaust eru margir smeykir um svona loforð um að halda starfseminni gangandi í viðkomandi bæjarfélagi.

„Það tryggir auðvitað ekkert svona rekstur nema varanlegar forsendur til hans. Þá kemur þrennt til en staðsetning Vísis er einkar hagkvæm þegar horft er til útflutnings, við erum stutt frá löndunarhöfn og alþjóðlegum flugvelli, númer tvö að við höfum nú þegar fjárfest mjög vel í tækjakosti við landvinnsluna og síðast en ekki síst búum við yfir gífurlegum mannauði. Sú breyting hefur orðið á undanförnum árum að fyrirtækið er ekki að útvega þessu frábæra starfsfólki vinnu, heldur er starfsfólkið að skapa fyrirtækinu afl með reynslu sinni og þekkingu. Þarna hefur orðið mikil breyting á síðustu árum.“

Stækkunarmöguleikar eru miklir með þessari sameiningu.

„Kvótastaða samstæðu Síldarvinnslunnar verður gríðarlega sterk en bæði á Síldarvinnslan mikinn bolfiskkvóta en einnig uppsjávarkvóta. Þar höfum við hvergi komið nálægt og því er þetta spennandi fyrir okkur líka. Eins hefur Síldarvinnslan verið að hasla sér völl í fiskeldi og það er sömuleiðis nýtt fyrir okkur en við getum afkastað miklu meiru í vinnsluhúsunum okkar og lítum þessa breytingu því mjög björtum augum.“

Verða einhverjar breytingar?

„Nei, það mun nákvæmlega ekkert breytast við þessi viðskipti nema við munum bara styrkjast og eflast. Allt okkar starfsfólk heldur áfram, ég mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra hér í Grindavík og eini munurinn að Vísir hf. verður dótturfélag Síldarvinnslunnar. Vísir hf. hefur alltaf stutt myndarlega við bakið á íþróttalífinu í Grindavík og menningunni og það verður engin breyting á því.“