Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Fréttir

Veislan heldur áfram á Ljósanótt
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 6. september 2019 kl. 12:02

Veislan heldur áfram á Ljósanótt

Veðurblíða og hlátrasköll einkenndu fyrsta heila dag Ljósanætur. Bæjarbúar tóku virkan þátt í gleðinni, sem þennan dag einkenndist af opnun sýninga, rölts um miðbæinn þar sem fólk naut þess að hittast, skoða menningu, vöruúrval, skiptast á kveðjum og hlægja saman. Hvítvínskonurnar úr revíu Leikfélags Keflavíkur, Allir á trúnó settu skemmtilegan svip á miðbæjarröltið. Mynd af þeim, ásamt mynd frá opinni söngstund í Ráðhúsi er í viðhengi

Opnun sýninga í listasal Duus Safnahúsa og minni sölum innan hússins má segja að hafi markað upphaf dagskrár í gær, þó margt lista- og handverksfólki taki sér stöðu fyrr og bjóði gesti og gangandi velkomna. Í dag heldur lista- og menningarveislan áfram, m.a. með breyttu sniði. Bryggjuballið, sem áður var við Smábátahöfn, mun nú sameinast Götupartýi á mótum Hafnargötu og Tjarnargötu. Þar munu ýmsar sveitir og diskótekarar stíga á stokk og þar verður kjötsúpa Skólamatar borin fram frá kl. 19:00.

Af öðrum dagskrárliðum dagsins í dag sem má nefna er að úrslit í ljóðasamkeppni Ljósabera, sem menningarfélagið Bryggjuskálind efndu til í tilefni Ljósanætur verða kunngjörð í Bíósal Duus Safnahúsa í dag kl. 17:30. Í dómnefnd sátu Anton Helgi Jónsson, Guðmundur Magnússon, Guðrún Eva Mínervudóttir og Hrafn Harðarson. Sigga Kling kemur í heimsókn og mun spá fyrir gestum Kef restaurant milli 18:00 og 19:00 og aftur milli 20:00 og 21:00.

Tónlistarflutningur skipar stóran sess í dagskránni í dag. Auk áðurnefnds götupartýs koma stórsöngvarar fram á tónleikum á Nesvöllum kl. 14:00 og Hildur Hlíf mun bjóða upp á barnasöngva í garðinum sínum á Berginu kl. 17:00, en hún er nágranni skessunnar í hellinum. Garðpartý verður haldið í kvöld við Norðurvelli 8 og Valdimar og KGB verða með tónleika á Paddy´s. Vinsælasti tónlistardagskrárliðurinn, Heimatónleikar í gamla bænum, fer svo fram kl. 21:00 og 23:00 þar sem átta tónlistarmenn og hljómsveitir spila í jafnmörgum heimahúsum. Þeir sem vilja ganga lengra get svo skellt sér á Júdasarball á Ránni, en sveitin mun fagna þar 50 ára afmæli, eða með Sprite Zero Klan á H30.

Umfram allt verður gleðin áfram við völd og nóg í boði fyrir alla.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs