Ungmennaráð vill símalausa grunnskóla og betri aðgang að sálfræðingum
Ungmennaráð Reykjanesbæjar lagði á fundi menntaráðs 9. janúar 2026 fram tillögur um símalausa grunnskóla og átak til að draga úr notkun samfélagsmiðla, auk þess sem kallað var eftir greiðari aðgangi ungmenna að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöfum í öllum grunnskólum bæjarins.
Fulltrúar ungmennaráðs Reykjanesbæjar, þær Bryndís Ólína Skúladóttir, Guðdís Malín Magnúsdóttir, Björk Karlsdóttir og Aðalheiður Ísmey Davíðsdóttir, mættu á fund menntaráðs Reykjanesbæjar föstudaginn 9. janúar ásamt Ólafi Bergi Ólafssyni, umsjónarmanni ungmennaráðs. Þar fylgdu þau eftir erindum sem ungmennaráð hafði áður flutt fyrir bæjarstjórn 18. nóvember.
Í erindinu setti ungmennaráð fram nokkrar tillögur sem lúta að líðan og velferð ungmenna. Þar á meðal er lagt til að allir grunnskólar í Reykjanesbæ verði símalausir og að farið verði í sameiginlegt átak og herferð til að draga úr notkun samfélagsmiðla meðal ungmenna. Ráðið bendir á að samfélagsmiðlanotkun geti haft áhrif á líðan og telur mikilvægt að bregðast við með skýrum aðgerðum.
Þá var sérstaklega rætt um andlega heilsu ungmenna. Ungmennaráð leggur til að betur verði auglýst hvert ungmenni geti leitað ef það þarf hjálp og að tryggður verði léttari aðgangur að sálfræðingum. Jafnframt er kallað eftir því að félagsráðgjafar verði í öllum grunnskólum bæjarins og að þeir hafi nægan tíma og svigrúm til að grípa inn í þegar þörf er á — helst sem viðbót við námsráðgjafa en ekki í þeirra stað.
Í erindunum kom einnig fram áhersla á lesskilning. Ungmennaráð vill að aukin áhersla verði lögð á að mæla raunverulegan lesskilning nemenda og að kennarar fái fleiri verkfæri til að meta hann, meðal annars með ítarlegri prófum, umræðum um texta og spurningum sem krefjast dýpri hugsunar.
Menntaráð Reykjanesbæjar þakkaði ungmennaráði fyrir málefnaleg og vel ígrunduð erindi. Í bókun ráðsins segir að þar hafi komið fram mikilvægar ábendingar um andlega heilsu, áhrif samfélagsmiðla, lesskilning og jákvæða þróun í skóla- og frístundastarfi. Menntaráð fagnar jafnframt virkni og ábyrgð ungmennaráðs og telur framlag þess afar dýrmætt við stefnumótun og ákvarðanir í málaflokkum sem varða börn og ungmenni í sveitarfélaginu.








