Fréttir

Undirbúa öfluga upplýsingamiðstöð um eldgosið
Föstudagur 4. júní 2021 kl. 07:49

Undirbúa öfluga upplýsingamiðstöð um eldgosið

Gosið í Fagradalsfjalli hefur vakið gríðarlega athygli erlendis og það finna Grindvíkingar. Þeir búast við fjölda ferðamanna til Grindavíkur og ætla sér að nýta tækifærið og athyglina sem gosið vekur. Fannar Jónasson bæjarstjóri hefur staðið í framlínunni vegna eldgossins og Víkurfréttir spurðu hann hvort þetta hafi ekki verið sérstakir tímar fyrir bæjarstjórann og í raun bæjarbúa alla?

„Jú, þetta er búið að vera sérstakt og sérstaklega þegar jarðskjálftarnir voru sem mestir. Það var virkilega erfiður tími fyrir marga. Nú er ástandið orðið eitthvernveginn miklu stöðugra á meðan þetta gos er á þessum stað jafnvel þó það haldi áfram um einhverja mánuði eða ár, þá er byggðin hér ekki í neinni hættu. Við erum í miklu betri stöðu þrátt fyrir allt en verið hefur. Þetta hefur tiltölulega lítil áhrif á okkur hérna. Annað er það að ferðamenn sækja mikið hingað þannig að við lítum á þetta sem tækifæri líka að taka á móti ferðamönnum í auknum mæli, sérstaklega frá útlöndum. Við horfum björt til sumarsins og næstu ára, bæði fyrir Grindavík og Reykjanesið allt. Við vitum það að það er mikill áhugi, t.d. hjá Bandaríkjamönnum, sem voru fyrstir til að koma hingað til okkar, til að koma á gosstöðvarnar og ég held að það eigi eftir að skila okkur mjög góðum tekjum og starfsemi hingað inn í bæjarfélagið.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Þið hafið verið að skoða ýmis mál hvernig bæta má ýmsan aðbúnað og aðgengi að staðnum. Er eitthvað meira sem þið sjáið til að fá ferðamenn til að stoppa lengur?

„Já, við sjáum fyrir okkur að nota Kvikuna, auðlinda- og mennnigarhúsið okkar, sem upplýsingamiðstöð og jarðfræðisýningu þar sem augum verður sérstaklega beint að eldgosi og jarðskjálftum. Við erum að vinna að undirbúningi þess að þetta verði öflug miðstöð hér í Grindavík fyrir ferðamenn að kynna sér þessa starfsemi og vonumst til þess að geta tekið vel á móti öllum þeim sem hingað vilja koma. Við erum líka að vonast til þess að fólk dvelji lengur á Suðurnesjum og gisti fleiri nætur en verið hefur undanfarin ár. Við erum með mjög góða veitingaaðila, nýopnað glæsilegt hótel og afþreyingu fyrir ferðamenn. Bláa lónið er hérna hjá okkur. Við erum að vinna með þessum aðilum að vekja enn betri athygli á því hvað Grindavík og Reykjanesskaginn allur hefur uppá að bjóða.“

Framundan er sjómannadagshelgin en eins og í fyrra þá fellur sjómannahátíðin Sjóarinn síkáti niður í ár vegna kórónuveirufaraldursins en fjöldatakmarkanir setja hátíðum skorður. Og fyrst það er gos við Grindavík var bæjarstjórinn spurður hvort ekki væri bara ástæða til að setja upp goshátíð.

„Það er bara góð ábending. Kannski verður goshátíð. Við höfum eins og allir aðrir verið að velta fyrir okkur hvernig verði með fjöldatakmarkanir og því miður verðum við að slá Sjóarann síkáta af að þessu sinni en við munum koma öflugri til leiks, hvort sem hátíðin verður goshátíð eða sjómannahátíð. Við ætlum okkur bara að gera góða hluti hérna áfram.“