Fréttir

Troðfullt blað af viðtölum og fróðleik
Þriðjudagur 19. september 2023 kl. 18:55

Troðfullt blað af viðtölum og fróðleik

Víkurfréttir eru komnar út á rafrænu formi. Prentaðri útgáfu blaðsins verður dreift á alla okkar dreifingarstaði á miðvikudagsmorgun.

Það er svo sannarlega nóg að lesa í blaði vikunnar. Fjöldi viðtala og mikill fróðleikur í þessu 16 síðna blaði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nettröllin hafa farið hamförum. Samtökin ‘78 eru að fræða börn, ekki að innræta þeim hugmyndir. „Símarnir hafa breytt leiknum,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir í viðtali við Víkurfréttir.

„Líf mitt hefði verið allt öðruvísi ef ég hefði fengið fræðslu um hinsegin málefni í grunnskóla,“ segir Jórmundur Kristinsson frá Grindavík en talsvert hefur borið á umræðu um Samtökin ‘78 að undanförnu í kjölfarið á fræðslu um hinsegin málefni í grunnskólum landsins. Hann er í viðtali við Víkurfréttir

Keflvíkingurinn Garðar Örn Arnarson er maðurinn á bak við tjöldin í orðsins fyllstu merkingu. Hann er hugmyndasmiðurinn á bak við hinn geysivinsæla sjónvarpsþátt um íslenskan körfuknattleik, Körfuboltakvöld. Garðar Örn er í viðtali við blaðið í þessari viku.

Matráðsskipti urðu á dögunum í stærsta leikskóla Reykjanesbæjar, Akri í Innri-Njarðvík, en Sabina Arthur Rúnarsdóttir, sem er frá Ghana, tók við af Sigríði Guðrúnu Ólafsdóttur, eða Sirrý eins og hún er jafnan kölluð. Sirrý er komin á eftirlaunaaldur og Sabina, sem var henni til aðstoðar, tekur við og því gætu börnin á Akri fengið að smakka á íslenskum mat undir afrískum áhrifum á næstunni. Þær eru í viðtali við Víkurfréttir.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, ræðir við Víkurfréttir um eldsumbrot á Reykjanesskaga og við birtum niðurstöður úr nýrri skýrslu Veðurstofu Íslands um náttúruvá á Reykjanesskaganum.

Í blaðinu sýnum við ykkur myndir úr réttum úr Grindavík, segjum frá viðskiptum við Vatnsnesveg og kynnum til leiks nýjan pistlahöfund með lokaorð á baksíðu Víkurfrétta.