Flugger
Flugger

Fréttir

Togarinn Orlik að sökkva í Njarðvíkurhöfn
Hafnsögubáturinn Auðunn var fenginn á staðinn og dregin var út mengunarvarnargirðing umhverfis skipið. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 22. júlí 2019 kl. 02:14

Togarinn Orlik að sökkva í Njarðvíkurhöfn

Björgunaraðgerðir standa nú yfir í Njarðvíkurhöfn þar sem togarinn Orlik er að sökkva við bryggju.

Þess varð vart á tíunda tímanum í gærkvöldi, sunnudagskvöld, að mikill leki var kominn að skipinu þar sem það hefur legið bundið við bryggju í um fimm ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var Sigurður Stefánsson hjá Köfunarþjónustu Sigurðar sem varð var við að skipið væri að sökkva. Sigurður er vel kunnugur skipinu og hefur haft með því eftirlit. Þannig kannaði hann aðstæður um borð í síðustu viku og þá var allt með felldu.

Ástand skipsins er hins vegar orðið mjög hættulegt og ryðgöt eru komin á skrokk þess.

Þegar ljóst var að skipið var að sökkva var kallaður út mannskapur í björgunaraðgerðir. Dælum var komið um borð og núna um kl. 02 eftir miðnætti er dæling að byrja að skila árangri á þann hátt að skipið var hætt að síga. Skipið hallaði talsvert þegar fyrstu menn komu á staðinn og hallinn hélt áfram að aukast þegar leið á kvöldið.

Starfsmenn Reykjaneshafnar voru kallaðir til og fenginn var mengunarvarnarbúnaður frá Faxaflóahöfnum sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins flutti til Njarðvíkur. Hafnsögubáturinn Auðunn var fenginn á staðinn og dregin var út mengunarvarnargirðing umhverfis skipið.

Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fylgist með aðgerðum við höfnina en Umhverfisstofnun hefur verið tilkynnt um atvikið.

Dælur hífðar um borð í Orlik við Njarðvíkurhöfn í kvöld.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur verið gefið grænt ljós á förgun skipsins hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Sú aðgerð átti að eiga sér stað á næstu vikum en ástand skipsins virðist vera það alvarlegt að hraða þarf þeirri aðgerð að koma skipinu á öruggan stað svo hægt sé að rífa það.