Fréttir

Reykjanesbær verður ekki fyrstur með tölur
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 12. maí 2022 kl. 20:05

Reykjanesbær verður ekki fyrstur með tölur

Fyrstu tölur úr sveitarstjórnarkosningunum hafa í síðustu skipti verið frá Reykjanesbæ og tilbúnar á slaginu klukkan tíu, eða strax eftir lokun kjörstaða en verða líklega ekki núna. Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar, sagði að líklega yrðu fyrstu tölur um klukkan hálf ellefu á laugardagskvöld.

Ástæðan er sú að ekki má núna telja í búnt fyrir hvert framboð sem hefur verið gert og hefur flýtt fyrir en nú má aðeins flokka atkvæðin. Á kjörskrá í Reykjanesbæ eru 14.646. 

Í Suðurnesjabæ gera menn sér vonir um að fyrstu tölur verðir tilbúnar kl. 22.15 að sögn Jennýjar Kamillu Harðardóttur. Á kjörskrá í Suðurnesjabæ eru 2.729. Í Grindavík má búast við fyrstu tölum milli kl. 22.30 og 23.00 að sögn Kjartans Fr. Adolfssonar, formanns yfirkjörstjórnar. Þar eru 2.531 á kjörskrá. Í Sveitarfélaginu Vogum eru eitt þúsund manns á kjörskrá og þar er von á fyrstu og lokatölum um kl. 23 að sögn Hilmars E. Sveinbjörnssonar, formanns kjörstjórnar.