Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Fréttir

Mikilvægt að Hinsegin Plútó hafi sitt húsnæði til umráða
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 2. febrúar 2023 kl. 17:05

Mikilvægt að Hinsegin Plútó hafi sitt húsnæði til umráða

Velferðarráð Reykjanesbæjar tekur undir með forsvarsfólki Hinsegin Plútó um mikilvægi þess að þau hafi sitt húsnæði til umráða þar sem hægt er að tryggja betur öryggi, vellíðan og traust ungmenna sem sækja stuðning í félagsstarfið. Hinsegin Plútó hefur fengið aðstöðu í 88 húsinu undanfarin ár sem hefur gert starfinu kleift að dafna. Þar blandast ungmennin við önnur sem sækja aðra viðburði í húsinu, sem undir öðrum kringumstæðum væri frábært, en í tilfelli ungmenna sem treysta sér ekki til að opinbera hver þau í raun og veru eru – getur það verið erfiðara en orð fá lýst.

Málefni Hinsegin Plútó, félagsstarfs fyrir hinsegin ungmenni, voru til umfjöllunar á fundi velferðarráðs Reykjanesbæjar á dögunum þar sem Guðrún María Þorgeirsdóttir frá Hinsegin Plútó mætti á fundinn og kynnti starfið.

Hinsegin Plútó sem stofnað var 30. maí 2018 er félagsstarf fyrir ungmenni á aldrinum tólf til átján ára og hefur verið starfandi í um fimm ár. Það sem dreif Ragnar Birki Bjarkarson og Guðrúnu Maríu Þorgeirsdóttur áfram að stofna þessi félagasamtök var hugsjón og drífandi kraftur. Hvernig á að fræða barnið sitt þegar ungir krakkar eru að finna sig og máta lífið og tilveruna? Á fyrsta kvöldið komu sjö ungmenni og með tímanum sem liðinn er frá stofnun félagsins hefur forsvarsfólk tekið á móti allt að tuttugu ungmennum á einu kvöldi. Hinsegin Plútó þjónustar öll Suðurnesin og hafa ungmenni frá Reykjanesbæ, Vogum, Grindavík og Suðurnesjabæ sótt kvöldin.

Samkvæmt greinargerð er tilgangur Hinsegin Plútó að halda úti félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni á Suðurnesjum og vinna að málefnum hinsegin samfélagsins. Félagið leitast við að vera með fræðslu og skemmtikvöld fyrir hinsegin ungmenni og aðstandendur þeirra eftir efnum og áhuga auk þess að vinna að réttindum alls hinsegins fólks á svæðinu, sem með félaginu kýs að starfa.

Öll vinna sem framkvæmd er af Hinsegin Plútó hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. Velferðarráð telur mjög mikilvægt að starf af þessu tagi sé í boði á svæðinu þar sem tækifæri gefst fyrir ungmenni að eignast jafningjagrundvöll og finna stað sem þau tilheyra frjáls í okkar samfélagi hér á Suðurnesjum. Rík áhersla er lögð á þá staðreynd að hinsegin ungmenni eru í aukinni hættu á útskúfun, hatursfullri orðræðu og minni stuðningi frá jafnöldrum, vinum og jafnvel fjölskyldu. Það er á ábyrgð hvers samfélags að koma í veg fyrir mismunun og óréttlæti.

Velferðarráð tekur undir með forsvarsfólki Hinsegin Plútó um mikilvægi þess að þau hafi sitt húsnæði til umráða þar sem hægt er að tryggja betur öryggi, vellíðan og traust ungmenna sem sækja stuðning í félagsstarfið. Hinsegin Plútó hefur fengið aðstöðu í 88 húsinu undanfarin ár sem hefur gert starfinu kleift að dafna. Þar blandast ungmennin við önnur sem sækja aðra viðburði í húsinu, sem undir öðrum kringumstæðum væri frábært, en í tilfelli ungmenna sem treysta sér ekki til að opinbera hver þau í raun og veru eru – getur það verið erfiðara en orð fá lýst. Með því að tryggja Hinsegin Plútó eigin aðstöðu getur forsvarsfólk betur búið um öryggi ungmenna og fengið tækifæri til að gera umhverfið sitt regnbogavænt með hlýjuna að leiðarljósi. Ungmenni í okkar bæjarfélagi sem mögulega leita svara við spurningum sínum um eigin kynhneigð eiga að geta gert það á hlutlausum stað, það er mikilvægt í okkar fjölmenningarsamfélagi.