Fréttir

Margrét Elín ráðin sem yfirkennari Flugakademíu Íslands
Mánudagur 20. júlí 2020 kl. 13:31

Margrét Elín ráðin sem yfirkennari Flugakademíu Íslands

Margrét Elín Arnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem yfirkennari hjá Flugakademíu Íslands. Skólinn er nýlega sameinaður úr Flugakademíu Keilis og Flugskóla Íslands og er nú stærsti flugskóli landsins. Margrét Elín býr yfir umtalsverðri reynslu úr flugheiminum og  hefur meðal annars starfað sem flugmaður hjá Icelandair síðan 2014 og þar áður sem flugumferðarstjóri hjá Isavia. Auk þess hefur Margrét starfað til fjölda ára sem bók- og verklegur flugkennari hjá Flugakademíu Keilis.

 „Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum. Stærsta verkefnið til að byrja með er að innleiða uppfærða samevrópska námsskrá. Það er líka vert að minnast á það að þrátt fyrir að flug sé í lágmarki núna vegna veirufaraldurs, þá hefur sagan sýnt okkur að besti tíminn til að læra flug sé í kreppu. Það kemur á endanum uppsveifla í fluginu aftur og þá er um að gera að vera tilbúinn,“ segir Margrét Elín, nýráðin yfirkennari Flugakademíu Íslands.

Sólning
Sólning

 Skólinn er sá eini sinnar tegundar sem býður upp á nám til atvinnuflugmanns á Íslandi og er jafnframt einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum. Þann 14. júní síðastliðinn útskrifuðust 78 atvinnuflugnemar sem er stærsta einstaka brautskráning atvinnuflugmanna á Íslandi frá upphafi. Nú þegar er orðið fullt í einn bekk á haustönn og búið að opna fyrir umsóknir í annan bekk. Umsóknarfresturinn rennur út 15. ágúst.

 „Við bjóðum Margréti hjartanlega velkomna til starfa. Það er magnað að fá svona öflugan og faglegan kennara til liðs við okkur og við hlökkum mikið til að starfa með henni,“ segir Björn Ingi Knútsson, forstöðumaður og rekstrarstjóri flugakademíunnar.

Nám í Flugakademíu Íslands er kennt sem staðnám frá Keflavík og Hafnarfirði. Einnig býðst nemendum að taka hluta af náminu í fjarnámi. Flogið er frá bæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli, en Flugakademía Íslands er eini flugskóli landsins sem býður upp á flug frá alþjóðaflugvelli.