Tónlistarskóli RNB vortónleika
Tónlistarskóli RNB vortónleika

Fréttir

Jákvæð þróun í rekstri Voga
Föstudagur 23. maí 2025 kl. 06:00

Jákvæð þróun í rekstri Voga

Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2024 var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn með sjö atkvæðum. Niðurstaðan sýnir verulegan viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins og staðfestir að Vogar uppfylla nú fjárhagsleg viðmið samkvæmt reglugerð.

Samkvæmt ársreikningi námu tekjur samstæðu A- og B-hluta 2,45 milljörðum króna á árinu 2024, sem er 200 milljónum umfram áætlun. Rekstrargjöld námu 2,1 milljarði, og var rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir því jákvæð um 346 milljónir. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 160 milljónir króna – 110 milljónum betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrartekjur jukust um 17% milli ára, en kostnaður hækkaði um 11%. Bæjarstjórn segir tekjuaukninguna einkum skýrast af fjölgun íbúa og hagræðing í rekstri hafi einnig skilað árangri.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Fjárhagslegt svigrúm eykst

Veltufé frá rekstri jókst í 314 milljónir árið 2024, sem er veruleg aukning frá 189 milljónum árið 2023 og 70 milljónum árið 2022. Þetta styrkir getu sveitarfélagsins til að fjármagna framkvæmdir með rekstrarfé.

Fjárfestingar ársins námu 189 milljónum króna. Meðal stærstu verkefna voru framkvæmdir við nýtt heilsugæsluhús sem opnaði í ársbyrjun 2025, endurbætur á kennslustofu við Heilsuleikskólann Suðurvelli, viðhaldsframkvæmdir í Stóru-Vogaskóla og endurgerð sundlaugar í íþróttamiðstöðinni.

Skuldastaða batnar

Skuldaviðmið sveitarfélagsins lækkaði úr 69% í árslok 2023 í 58% í lok árs 2024, sem gefur jákvæða vísbendingu um fjárhagslegt svigrúm til áframhaldandi uppbyggingar.

Styrking eignastöðu

Efnahagsreikningurinn sýnir einnig verulega breytingu, þar sem fasteignir og lóðir hækkuðu um 876 milljónir króna vegna reikningshaldslegrar breytingar á lóðaleigu. Heildareignir sveitarfélagsins í árslok 2024 námu 3,66 milljörðum króna, samanborið við 2,65 milljarða árið áður.

Í bókun bæjarstjórnar var lögð áhersla á mikilvægi ráðdeildar og áframhaldandi ábyrgðar í rekstri. Bæjarstjórn þakkaði jafnframt starfsfólki sveitarfélagsins fyrir mikilvægt framlag til þessa góða árangurs.