Grindavík leggur fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun
Sprunguviðgerðir og raforkuöryggi í forgangi Bæjarstjórn krefst tafarlausra aðgerða
„Við höfum unnið aðgerðalista sem tekur á fjölmörgum þáttum, bæði til skamms tíma og lengri tíma litið,“ segir í pistli bæjarstjórnar. Þar kemur fram að markmið listans sé ekki aðeins að framkvæma heldur einnig að kalla eftir samstöðu og skýrri forgangsröðun hjá öllum sem koma að málefnum Grindavíkur.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að sumarið 2025 verði nýtt sem tækifæri til sóknar og uppbyggingar. „Það er brýnt að samstaða náist um næstu skref og að þau komi til framkvæmda af fullum þunga.“
Helstu verkefni í forgangi
Í aðgerðaráætluninni eru verkefni flokkuð eftir forgangi. Meðal brýnustu verkefna eru:
- Niðurrif altjónshúsa til að rýma fyrir uppbyggingu og auka öryggi.
- Sprunguviðgerðir innan þéttbýlis, sem skapa grundvöll fyrir endurkomu íbúa og eðlilegri notkun byggðar.
- Trygging raforkuöryggis, sem bæjarstjórn segir vera „undirstöðu annarra innviða og grunnkerfa“.
- Trygging starfsemi slökkviliðs Grindavíkur og greining á nýtingu eigna Þórkötlu, sem á að styðja við atvinnulíf og samfélag.
Í flokki verkefna sem krefjast frekari úrvinnslu eru meðal annars framtíðarskipulag innviða, varavatnsból á Vatnsheiði og endurbætur á skóla- og félagsaðstöðu. Einnig þarf að hækka Kvíabryggju í Grindavíkurhöfn um allt að 1,5 metra til að hún þoli flóð.
Rafmagnsmálin „óásættanleg“
Bæjarstjórn dregur fram sérstaklega alvarlega stöðu raforkuöryggis í bænum og segir hana ógna bæði öryggi og uppbyggingu:
„Ótryggt raforkuöryggi í Grindavík er óásættanlegt og staðan ógnar bæði öryggi og uppbyggingu bæjarins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og viðvaranir hefur ekki tekist að tryggja bæjarfélaginu örugga rafmagnstengingu.“
Bæjarfulltrúar krefjast þess að gripið verði tafarlaust til aðgerða af hálfu ríkisins, stofnana og orkufyrirtækja. „Grindvíkingar eiga rétt á öruggri grunnþjónustu og raforka er ein af undirstöðum samfélagsins.“
Bærinn tilbúinn með fjármagn – nú er aðkomu ríkisins beðið
Grindavíkurbær hefur lýst sig reiðubúinn til að leggja fram allt að 200 milljónir króna til að hraða sprunguviðgerðum og öðrum brýnum verkefnum. Íbúarnir bíða nú svara frá Grindavíkurnefnd forsætisráðuneytisins, Alþingi og öðrum aðilum.
„Við vonum að við þurfum ekki að bíða lengi eftir viðbrögðum. Með samstilltu átaki, og áframhaldandi góðu samstarfi við ykkur, kæru Grindvíkingar, höldum við áfram að byggja upp bæinn okkar, skref fyrir skref,“ segir að lokum í pistlinum.