Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Fréttir

Hélt fyrst að sökkvandi báturinn væri gámur í sjónum
Sökkvandi báturinn var dreginn til Sandgerðis snemma í morgun. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 16. maí 2024 kl. 10:35

Hélt fyrst að sökkvandi báturinn væri gámur í sjónum

Arnar Magnússon, vélstjóri úr Garðinum, var á leiðinni til fiskjar í nótt á strandveiðibáti sínum þegar hann bjargaði sjómanni af sökkvandi báti um sex sjómílur norðvestur af Garðskaga.

„Við vorum á svipuðum tíma út en hann gengur aðeins hraðar hjá honum og hann var því aðeins á undan mér og var kominn utar en ég. Það var svolítið myrkur en ég sá svo rekald í sjónum og sagði við sjálfan mig, er þetta gámur, því þeir eru alltaf að missa gáma í sjóinn. Það var fraktflutningaskip nýbúið að fara hérna hjá. Þegar ég kem nær sé ég að þetta er bátur á hvolfi,“ segir Arnar Magnússon. Hann stundar strandveiðar frá Sandgerði og bjargaði sjómanninum af Höddu HF.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sjómanninum tókst að komast í björgunargalla og var í sjónum þegar Arnar bjargaði honum. Arnar hélt þegar til Sandgerðis með manninn, sem var orðinn kaldur eftir veruna í sjónum. Sjúkrabíll beið mannsins og flutti hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.

Eins og sjá má á myndum af bátnum eftir að komið var með hann til Sandgerðis í morgun þá er nokkrar skemmdir að sjá á botni bátsins sem geta bent til þess að hann hafi siglt á rekald á leið sinni á miðin.