Fréttir

Aflafréttir: Veiði báta fremur dræm í september
Guðmundur Jónsson GK þegar hann kom til Sandgerðis árið 1975. Mynd/ReynirSveinsson.
Föstudagur 4. október 2019 kl. 07:55

Aflafréttir: Veiði báta fremur dræm í september

Þá er enn einn mánuðurinn kominn á enda og er það september, frekar óvenjulegur september. Í það minnsta hjá línubátunum. Iðulega þá hefur september verið nokkuð góður aflamánuður hjá þeim en í þetta skipti var veiði bátanna frekar dræm. Engin mokveiði.

Bara sem dæmi að þá var enginn bátur að 15 tonnum sem náði yfir 10 tonn í einni löndun og eru þá líka bátar utan Suðurnesjanna taldir með. Ekki eru allar lokatölur komnar inn þegar þetta er skrifað en þá var staðan þannig að Páll Jónsson GK og Jóhanna Gísladóttir GK voru saman með sitthvor 355 tonn. Sturla GK 342 tonn, Sighvatur GK 341 tonn, Fjölnir GK 334 tonn. Sturla GK hefur fengið sinn afla í sex róðrum sem er frekar mikið og mest aðeins 67 tonn í einni löndun sem er frekar lítið miðað við hvað báturinn hefur komið mest með í land.

Veiðar dragnótabáta var nokkuð góð. Siggi Bjarna GK með 195 tonn í sautján róðrum. Benni Sæm GK 170 tonn í 17 róðrum. Maggý VE 96 tonn í 15 róðrum en báturinn landaði mestu af afla sínum í Grindavík og Sandgerði. Sigurfari GK nýi með 88 tonn í 14 róðrum.

Það má geta þess að Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK eru það sem kallað er bugtarbátar sem þýðir að þeir mega veiða inn í Faxaflóa. Aðalbjörg RE er líka þannig bátur og fiskaði Aðalbjörg RE mjög vel, var með 164 tonn í 13 róðrum en landaði öllum aflanum sínum í Reykjavík.

Annars er þessi pistill skrifaður frá Akureyri, fór þangað með handknattleikslið sem var að spila þar. Hægt er að finna mjög margar tengingar við Akureyri og Suðurnesin.

Á Akureyri er mjög öflug skipasmíðastöð og slippur og á árum áður þá voru mjög margir bátar, flestir stálbátar eru smíðaðir þar en þar var líka skipasmíðastöðin Vör sem meðal annars smíðaði marga 30 tonna eikarbáta, og nokkrir þeirra voru lengi gerðir út frá Keflavík og Sandgerði, t.d Sæljón RE, Eyvindur KE, Reykjarborg RE, Haförn KE svo dæmi séu tekin.

Í Slippnum á Akureyri voru þrjú skip þar stærst sem voru smíðuð og nokkuð merkilegt er að tvö þeirra tengdust Sandgerði ansi mikið. Hér skal fjallað um fyrra og síðan verður fjallað um seinna skipið.

Árið 1975 kom til Sandgerðis togarinn Guðmundur Jónsson GK 475 en hann var smíðaður á Akureyri fyrir Rafn Hf sem þá var mjög stórt útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði. Guðmundur Jónsson GK var þannig útbúinn að hann stundaði loðnuveiðar og landaði meðal annars loðnu í Sandgerði og samkvæmt aflaskýrslum sem ég hef séð þá kom hann með í kringum 820 tonn í einni löndun af loðnu og á þeim tíma var þetta mjög mikið magn.

Þessi togari var því miður ekki gerður lengi út frá Sandgerði því hann var seldur til Vestmannaeyja árið 1978 og fékk þar nafnið Breki VE og var gerður út með því nafni í hátt í þrjátíu ár. Það má geta þess að það var Sandgerðingur sem var lengi skipstjóri á bátnum, Magni Jóhannsson, sem í dag á smábát sem heitir Tjúlla GK.

Faðir minn, Reynir Sveinsson, myndaði Guðmund Jónsson GK þegar hann kom til Sandgerðis árið 1975 og fylgir myndin hér með.

Að lokum, í síðasta pistli var aðeins fjallað um Tomma á Hafnarberginu RE og þar var sagt að hann héti Tómas Tómasson en rétt nafn er Tómas Sæmundsson. Er beðist velvirðingar á þessum ruglingi.

Gísli Reynisson
Aflafrettir.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs