Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Fréttir

Gosið í Fagradalsfjalli opnaði sýn í iður jarðar
Ljósmynd: Hjálmar Árnason
Föstudagur 1. júlí 2022 kl. 08:42

Gosið í Fagradalsfjalli opnaði sýn í iður jarðar

Eldgosið í Fagradalsfjalli gaf vísindamönnum víða um heim einstakt tækifæri til að skyggnast niður í iður jarðar ef þannig má að orði komast. Vísindafólkið gat þannig rannsakað kviku sem hafði vel fyrir gos streymt upp úr möttlinum frá meira en 20 km dýpi og safnast í stóra geymsluþró í neðri skorpunni á um 15 til 20 km dýpi.

Þetta kemur fram í nýrri grein sem var að birtast í hinu heimsþekkta vísindatímariti Nature Communications. Á meðal höfunda eru jarðvísindamennir Þorvaldur Þórðarson, prófessor og Ármann Höskuldsson, rannsóknaprófessor, báðir við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands greinir frá þessu.

Public deli
Public deli

Rannsóknarteymi frá Íslandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi nýtti sér þetta tækifæri, safnaði sýnum á nokkra daga fresti út allt gosið til þess að fylgjast með breytingum og þróun á efnasamsetningu kvikunnar í smáatriðum og því sem næst í rauntíma.

„Rannsóknarteymið beindi sjónum sýnum að súrefnissamsætum,“ segir Þorvaldur sem var hvað mest allra vísindamanna við gosstöðvarnar á meðan eldur var uppi ásamt Ármanni Höskuldssyni.

„Hvers vegna? Jú, sjáðu til, vegna þess að styrkur súrefnis i gosbergi er um 50%, hinn helmingurinn er öll önnur frumefni sem eru í slíku bergi. Af þessum sökum þá er hlutfall súrefnissamsæta góður vísir á bæði uppruna og þróunarferli kvikunnar, t.d. er samsætuhlutfall súrefnis í möttlinum frábrugðið því sem einkennir skorpuna. Greiningar á hinum frumefnunum í kvikunni veittu líka upplýsingar sem komu á óvart,“ segir Þorvaldur sem var gríðarlega áberandi í fjölmiðlum á meðan á gosinu stóð við að skýra og túlka þær aðstæður sem voru uppi.

Mikilvægt til að skilja ferla sem mynda kviku

Niðurstöðurnar benda til þess að kvikan sem kom upp í Fagradalsfjallsgosinu eigi ættir sínar að rekja til a.m.k. þriggja mismunandi upprunastaða eða þátta í möttlinum undir Reykjanesskaga, hver um sig með sína einkennandi efnasamsetningu.

„Það var því óvænt þegar það kom í ljós að samsætuhlutfall súrefnis var eins í öllum þessum möttulþáttum, en slíkt hefur ekki verið skráð áður út í gegnum yfirstandandi eldgos. Rannsóknin gefur sterklega til kynna að þrátt fyrir margbreytilega efnasamsetningu, þá er möttullinn undir Reykjanesskaganum einsleitur með tilliti til samsætuhlutfalls súrefnis,“ segir Ármann Höskuldsson.

Þeir segja báðir að niðurstaðan muni án vafa hjálpa til við að auka skilningin á þeim ferlum mynda kvikuna í möttlinum og þróa samsetninguna á leið hennar til yfirborðs.

Hér má lesa grein vísindafólksins í heild sinni: https://www.nature.com/articles/s41467-022-31348-7.pdf