Fréttir

Fundu gamla glóðarhausvél undan Djúpuvík nærri Stafnesi
Vélin er glæsilegur gripur. Nú vantar að vita úr hvaða báti vélin er. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 12. maí 2022 kl. 12:13

Fundu gamla glóðarhausvél undan Djúpuvík nærri Stafnesi

Sigurður Stefánsson og hans menn hjá Köfunarþjónustu Sigurðar voru að sinna viðhaldi á frárennslislögn frá Keflavíkurflugvelli við Djúpuvík nærri Stafnesi þegar þeir fundu óvænt gamla vél úr báti á hafsbotni. Flotbelgir voru settir á vélina og henni fleytt að bryggju í Höfnum á miðvikudag í síðustu viku þar sem hún var hífð á land.

Um er að ræða glóðarhausvél frá Skandia með framleiðslunúmerið 25616. Nú er eftirgrennslan í gangi um það úr hvaða báti vélin gæri verið. Glóðarhausvélar voru algengar á fyrri hluta síðustu aldar. Vélin fannst á um 18 metra dýpi eina 150 til 200 metra frá landi.

Leitað hefur verið til kunnugra en ekki hafa fengist upplýsingar um úr hvaða bát vélin gæri verið. Þá liggur heldur ekki fyrir hvað verður um vélina eða hvar hún verður varðveitt.