Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Fimm með yfir 9,6 í meðaleinkunn á vorönn
Anita Ýrr Taylor og Stefán Elías Berman voru jöfn með hæstu einkunn en þau voru bæði með 9,72 í meðaleinkunn.
Föstudagur 2. júní 2023 kl. 10:45

Fimm með yfir 9,6 í meðaleinkunn á vorönn

– Ein stærsta útskrift í sögu Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fimm nemendur voru með yfir 9,6 í meðaleinkunn á vorönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en skólaslit vorannar og brautskráning fór fram föstudaginn 26. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 132 nemendur; 91 stúdent, 26 luku verknámi, sjö útskrifuðust af sjúkraliðabraut, fjórtán af starfsbrautum og einn af framhaldsskólabraut. Þess má geta að sumir ljúka prófi af fleiri en einni braut. Karlar voru 67 en konur 65. Alls komu 92 úr Reykjanesbæ, sautján úr Suðurnesjabæ, þrettán úr Grindavík, fjórir úr Vogum og aðrir komu frá Reykjavík, Hafnarfirði, Vopnafirði, Kópaskeri og Vestmannaeyjum.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Logi Þór Ágústsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Gunnlaugur Sigurðsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en að þessu sinni lék Sara Cvjetkovic nýstúdent á píanó og Magnús Már Newman nýstúdent spilaði sneriltrommudúett ásamt Þorvaldi Halldórssyni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi og má sjá nöfn verðlaunahafa annars staðar í opnunni. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift. Að þessu sinni voru þau Anita Ýrr Taylor og Stefán Elías Berman bæði með 9,72 í meðaleinkunn og fengu bæði styrk úr skólasjóði. Anita og Stefán fengu einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Logi Þór Ágústsson og Magnús Már Newman fengu hvor 50.000 kr. styrk fyrir störf í þágu nemendafélags skólans og þær Elísabet Birgisdóttir, Ragnheiður Ýr Þórisdóttir og Tinna Björg Hammer Gunnarsdóttir fengu 30.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í tjáningu og ræðumennsku.

Við útskriftina veittu foreldrafélag skólans og Reykjanesbær verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum nemendafélagsins í vetur. Lilja Dögg Friðriksdóttir forvarnafulltrúi skólans afhenti verðlaunin. Það voru þau Jón Garðar Arnarsson og Margrét Norðfjörð Karlsdóttir sem voru dregin úr hópi þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku en þau fengu bæði spjaldtölvu að gjöf.

Við lok athafnarinnar voru þau Þorvaldur Sigurðsson, Björn Sturlaugsson, Gunnlaugur Sigurðsson, Ásta Birna Ólafsdóttir og Jón Þorgilsson kvödd en þau láta nú af störfum við skólann. Þorvaldur gat því miður ekki verið við athöfnina. Skólameistari veitti Gunnlaugi einnig silfurmerki skólans fyrir framlag hans til skólans undanfarin tuttugu ár.

Margar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu

Á útskrift vorannar voru veittar fjölmargar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu. Óvenjumörg verðlaun voru veitt að þessu sinni en þess má geta að fimm nemendur voru með meðaleinkunn yfir 9,6. Að þessu sinni voru tveir nemendur jafnir með hæstu einkunn við útskrift, þau Anita Ýrr Taylor og Stefán Elías Berman en þau voru bæði með 9,72 í meðaleinkunn.

Anita Ýrr Taylor fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði, ensku, félagsfræði, forritun og líffræði. Hún fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í íslensku og verðlaun frá Þekkingasetri Suðurnesja fyrir árangur sinn í náttúrugreinum. Þá fékk Anita Ýrr Menntaverðlaun HÍ fyrir framúrskarandi frammistöðu á stúdentsprófi. Anita Ýrr fékk námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Anita Ýrr 100.000 kr. styrk en hún var með 9,72 í meðaleinkunn. Hún fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Stefán Elías Berman fékk verðlaun frá skólanum fyrir góðan árangur í ensku. Hann fékk einnig verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði, gjöf frá Stærðfræðifélaginu fyrir árangur í stærðfræði og viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir árangur sinn í þýsku. Stefán fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum. Stefán fékk námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut hann 100.000 kr. styrk en hann var með 9,72 í meðaleinkunn. Stefán fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Krista Gló Magnúsdóttir hlaut viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði, íslensku, líffræði og spænsku. Hún fékk einnig viðurkenningu frá Efnafræðifélaginu fyrir góðan árangur í efnafræði og frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Þá fékk Krista Gló Raungreinaverðlaun HR sem veitt eru fyrir góðan árangur í raungreinum á stúdentsprófi.

Elva Sif Guðbergsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í efnafræði, ensku, íslensku, spænsku og viðskiptagreinum. Hún fékk einnig verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Valý Rós Hermannsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, íslensku, spænsku og stærðfræði. Hún fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum.

Hafliði Breki Bjarnason hlaut viðurkenningar fyrir árangur sinn í ensku, sögu og sálfræði og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum.

Ingólfur Ísak Kristinsson fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku og spænsku og frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Kara Petra Aradóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsfræði, sálfræði og fata- og textílgreinum.

Eyþór Trausti Óskarsson fékk verðlaun fyrir góðan árangur í vefforritun, 75.000 kr. námsstyrk frá DMM fyrir árangur í forritun og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Dagrún Ragnarsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í listasögu og myndlist.

Georg Viðar Hannah fékk gjafir frá Rönning, Ískraft og Reykjafelli fyrir góðan árangur í rafiðngreinum og viðurkenningu frá Isavia fyrir góðan námsárangur í verk- og tæknigreinum.

Skafti Þór Einarsson fékk gjafir frá Rönning, Ískraft og Reykjafelli fyrir góðan árangur í rafiðngreinum og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan námsárangur í verk- og tæknigreinum.

Magnús Már Newman hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í tónlistargreinum og störf í þágu nemenda.

Irma Rún Blöndal fékk viðurkenningu frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.

Hekla Eik Nökkvadóttir hlaut viðurkenningu fyrir árangur sinn í félagsfræði.

Helga Guðrún Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í húsasmíði.

Kristín Lóa Siggeirsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í fata- og textílgreinum.

Sigurrós Birna Tafjord fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur á starfsbraut.

Sólveig María Baldursdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í líffræði.

Helgi Þór Skarphéðinsson og Jón Ólafur Skarphéðinsson fengu gjafir frá Rönning, Ískraft og Reykjafelli fyrir góðan árangur í rafiðngreinum.

Hekla Eik Nökkvadóttir og Oddný Perla Kristjánsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir árangur sinn í félagsfræði.

Thelma Lind Hjaltadóttir og Tinna Hrönn Einarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir árangur sinn í stærðfræði.

Logi Þór Ágústsson og Sverrir Þór Freysson fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda.