Fréttir

Aukin þörf á fjárstuðningi
Þriðjudagur 8. september 2020 kl. 09:27

Aukin þörf á fjárstuðningi

– Prestar lýsa áhyggjum af ástandinu og aukinni þörf fyrir stuðning við framfærslu

Prestarnir í Njarðvíkurprestakalli, Keflavíkurprestakalli og Útskálaprestakalli hafa sent erindi til sveitarfélaga á Suðurnesjum er varðar aukna þörf á fjárstuðningi til framfærslu. Bréfið var sent sveitarfélögum svæðisins í lok maí að loknum fundi prestanna og starfsmanna sókna á Suðurnesjum með fulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar. Tilefni fundarins var aukin þörf og yfirvofandi fjölgun þeirra sem leita munu aðstoðar til Hjálparstarfs kirkjunnar í gegnum kirkjurnar á svæðinu, Velferðarsjóð Suðurnesja og Líknar- og hjálparsjóð Njarðvíkurkirkna.

Í erindi prestanna segir að hópurinn hafi miklar áhyggjur af því ástandi sem skapast mun í haust að óbreyttu þegar uppsagnarfresti fólks lýkur og fleiri fara á atvinnuleysisbætur. Fyrir er stór hópur öryrkja og erlendra ríkisborgara sem er á mjög lágri framfærslu á svæðinu. Þá sé sífellt meiri ásókn í stuðning við kaup á mat og lyfjum.

„Við leyfum okkur að benda á að það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja fólki grunnframfærslu. Þannig er það í raun ekki hlutverk Hjálparstarfs kirkjunnar, Líknar- og hjálparsjóðs Njarðvíkurkirkna eða Velferðarsjóðs Suðurnesja að létta ábyrgð sveitarfélaganna af framfærslu íbúa. Má þar einkum benda á greiðslu skólamatar og allt sem fellur undir skipulagt skólastarf eins og skólabúðir og skólaferðalög. Eins vekjum við athygli á því að framfærslustyrkur er mun lægri hjá sveitarfélögum á Suðurnesjum en öðrum sveitarfélögum. Við leggjum til að sveitarfélögin á Suðurnesjum hækki sitt framlag til jafns við framfærslustyrki annarra sveitarfélaga,“ segir í erindi prestanna.

Þá segir að ljóst sé að Hjálparstarf kirkjunnar, Velferðarsjóður Suðurnesja og Líknar- og hjálparsjóður Njarðvíkurkirkna muni þurfa að skerpa enn fremur á hlutverki sínu á komandi tíma enda svigrúm til aðstoðar háð frjálsum framlögum í fyrrnefnda sjóði.

Bréf prestanna var tekið fyrir í bæjarráði Reykjanesbæjar í síðustu viku en sviðsstjórar velferðarsviðs og fræðslusviðs sátu fund bæjarráðs þegar erindið var tekið fyrir. Bæjarráð fól þeim að vinna áfram í málinu sem tekið er fyrir í bréfinu.