Lyfta.is
Lyfta.is

Fréttir

Andlát: Kristbjörn Albertsson
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 25. júlí 2022 kl. 21:38

Andlát: Kristbjörn Albertsson

Kristbjörn Albertsson, kennari og körfboltadómari, er látinn. Kristbjörn hefði orðið 78 ára 8. ágúst nk. 

Kristbjörn kenndi í mörg ár í Njarðvíkurskóla en kennaraferillinn náði yfir þrjá áratugi. Að lokinni kennslu starfaði Kristbjörn hjá Suðurflugi en áður hafði hann einnig unnið hjá Flugleiðum.

Kristbjörn var þekktur körfuboltadómari á upphafsárum körfunnar en hann sinnti dómarastörfum á fjórða áratug og var fyrsti alþjóðadómari landsins. Hann var fimm sinnum valinn besti körfuboltadómari ársins. Þá dæmdi hann einnig í knattspyrnu. Kristbjörn var einnig formaður Körfuknattleikssambands Íslands um tíma. Hann var mikill Njarðvíkingur, var stjórnarmaður í UMFN í mörg ár og var sæmdur gullmerki UMFN fyrir störf sín. Kristbjörn var í bæjarpólitíkinni fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat m.a. í síðustu Bæjarstjórn Njarðvíkur. Hann var formaður barnaverndanefndar og einnig sat hann í Skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurnesja og var þar formaður um tíma.

Kristbjörn var kvæntum Mörthu Ólínu Jensdóttur en þau skildu 1983 en voru vinir alla tíð. Þau eignuðust synina Jóhannes og Jens. 

Útför Kristbjörns fer fram næsta þriðjudag 26. júlí kl. 13 frá Njarðvíkurkirkju.