Fréttir

Ákall um fjölgun félagsmiðstöðva í Reykjanesbæ
Hermann Borgar Jakobsson, varaformaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar, fer með ræðu sína um mikilvægi þess að fjölga félagsmiðstöðvum í bæjarfélaginu
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 18. nóvember 2022 kl. 13:30

Ákall um fjölgun félagsmiðstöðva í Reykjanesbæ

Þann 1. nóvember síðastliðinn var haldinn sameiginlegur fundur bæjarstjórnar og ungmennaráðs Reykjanesbæjar. Á fundinum fóru tólf meðlimir ráðsins með fjölbreytt erindi um mál sem varða börn og ungmenni.

Á fundinum mátti heyra að andleg heilsa ungmenna er mikið áhyggjuefni meðal ungmenna og voru lagðar fram tillögur um það hvernig mætti bæta úr því en þar má nefna að auka fræðslu um fjármál, kynfræðslu, tómstundir og svefn. Einnig var talað um að grunnskólar ættu að bjóða upp á fríar tíðarvörur fyrir ungmenni í Reykjanesbæ, auka samráð og upplýsingaflæði til barna um málefni sem snerta þau og að bæta ætti aðstöðu fimleikadeildar Keflavíkur sem og knattspyrnudeildar UMFN en sú aðstaða er ekki í samræmi við þann fjölda sem stundar báðar íþróttirnar í sveitafélaginu. Ungmennin voru þó ekki aðeins að nefna það sem mætti betur fara, þau hrósuðu Reykjanesbæ fyrir vel heppnaða Ljósanótt, Aðventugarðinn og aukinn metnað í menningarstarfi og hvetja þau Reykjanesbæ að halda áfram að styðja við það.

Ungmennaráðið lagði sérstaka áherslu á að nauðsynlegt sé að fjölga félagsmiðstöðvum í bænum, í samráði við félagsmiðstöðina Fjörheima. Þá sé staða ungmenna á Ásbrú og í Innri-Njarðvík sérstaklega slæm þar sem rannsóknir sýna að framboð tómstunda í nærumhverfi barna og ungmenna sé góð forvörn gegn ofbeldi, vímuefnanotkun og drykkju. Formaður ungmennaráðsins gagnrýndi sveigjanleika fjarvistarkerfis Fjölbrautaskóla Suðurnesja en nefndi þó að vandamálið sé á landsvísu og að breyta þurfi framhaldsskólalögum til að gera ungmennum kleift að taka virkan þátt í félagsstarfi án þess að fá fjarvistir. Síðast en ekki síst þakkaði ráðið Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, og bæjarstjórn sérstaklega fyrir gott frumkvæði að setja á stokk áheyrnarfulltrúaverkefni en verkefnið felur í sér að meðlimir ungmennaráðs sitja sem áheyrnarfulltrúar í fagráðum og nefndum Reykjanesbæjar að undanskyldum bæjarráði og barnaverndarnefnd.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ungmennaráðið telur Reykjanesbæ vera á góðri leið með innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélög og þakkar verkefnastjóra verkefnisins, Hirti Magna Sigurðssyni, fyrir góða vinnu og gott samstarf.

Ungmennaráð Reykjanesbæjar 2022-2023