Max Norhern Light
Max Norhern Light

Fréttir

96 síðna sumarlestrarveisla frá Víkurfréttum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 15. júlí 2020 kl. 23:23

96 síðna sumarlestrarveisla frá Víkurfréttum

Það eru veglegar Víkurfréttir í þessari viku. Blaðið er 96 síður að þessu sinni og troðfullt af lesefni. Í Víkurfréttum vikunnar er viðtal við Sylvíu Guðmundsdóttur. Hún ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og er að safna fyrir góðan málstað. Söfnunin hefur vakið mikla athygli en Sylvía brestur í söng fyrir hverjar 50.000 krónur sem hún safnar. Allt um það í blaði vikunnar.

Við segjum ykkur líka af Svani Má og Birnu sem eru á ferðalagi um Ísland. Svanur hjólar hringveginn en Birna syndir í öllum vötnum sem verða á vegi hennar. Skemmtilegt par og flottar myndir úr ferðalagi þeirra í blaðinu.

Helga Þórsdóttir tók nýverið við Listasafni Reykjanesbæjar sem safnstjóri. Hún boðar breytingar sem lesa má um í viðtalinu.

Við höldum áfram að taka Suðurnesjafólk í Netspjall. Nokkur þannig eru í blaðinu.

Ljósmyndarar Víkurfrétta voru á ferðinni og hafa fangað mannlífið í myndir. Nokkrar flottar myndaopnur eru í Víkurfréttum vikunnar.

Víkurfréttir eru með vandaða íþróttaumfjöllun í blaðinu í hverri viku. Vel myndskreytt og skemmtileg viðtöl við reynslubolta.

Í þessu tölublaði „endursýnum“ við nokkur viðtöl frá COVID-tímanum í vetur og vor. Við munum endurbirta fleiri viðtöl í næsta tölublaði, enda þægilegt að hafa nóg af lesefni við hendina í sumarfríinu.

Það er hentugt að fletta blaðinu í snjalltækjum eða tölvunni og lesa og skoða á fallegum sumarkvöldum, eða regnvotum :)

Við höldum áfram að gefa blaðið út með rafrænum hætti. Síðasta tölublað hefur t.a.m. verið lesið um 23.000 sinnum og fengið um 57.000 snertingar. Þá er gaman að segja frá því að nú eru síðurnar í rafrænni útgáfu orðnar yfir 1.100 talsins.

Að lokum hvetjum við ykkur til að standa með okkur vaktina og senda okkur ábendingar um áhugavert efni í okkar miðla. Sendið ábendingar á póstfangið vf@vf.is.