9,5 metra alda mæld við Garðskaga
Ölduhæð og áhlaðandi mikil í gærkvöldi – allt slapp þó vel til
„Í gærkvöldi klukkan 21:20 sýndi Garðskagaduflið 9,5 metra kenniöldu,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook. Hann bendir á að öldustefnan hafi verið um 250 gráður og að mælingarnar hafi staðfest mjög mikinn sjógang við Garðskaga og innanverðan Faxaflóa.
„Nú er næst stæsti straumur ársins,“ segir Einar, og bætir við að enn stærri straumur verði á fullu tungli 7. nóvember næstkomandi.
Samkvæmt Einari var ölduáhlaðandinn umtalsverður á Garðskaga og við innanverðan Faxaflóa. Þrátt fyrir að sjór hafi pusað yfir varnargarða slapp allt þó vel til.
„Mesti sjógangurinn var aðeins síðar en sjálft flóðið kl. 19. Munaði um það,“ skrifar hann.
Mikill sjógangur var við ströndina frá Garðskaga og að Hvalsnesi, þar sem ljósmyndari Víkurfrétta fór um á háflóðinu sem var um kl. 19 í gærkvöldi. Aldan braut á landinu en ekki flæddi að ráði upp á land, þó einstaka alda hafi sent væna gusu yfir varnargarða. Myndir má sjá hér að neðan af brimsköflunum og sjógangi gærkvöldsins.






